top of page

Borgarmálastefnuskrá Alþýðufylkingarinnar 2018


Stefna Alþýðufylkingarinnar í sveitarstjórnarmálum byggir á því meginsjónarmiði samtakanna að skilyrði fyrir auknum jöfnuði, lýðræði og velferð og lífsgæðum alþýðunnar sé aukið vægi hins félagslega á kostnað markaðsvæðingar. Alþýðufylkingin lítur ekki á félagslegar lausnir sem ölmusu til fátæklinga eins og títt er, heldur leiðir til að leysa samfélagsleg mál án þess að auðmenn geti haft þau að féþúfu. Þannig eru félagslegar lausnir almennt til mikils sparnaðar fyrir samfélagið og koma í veg fyrir fátækt, frekar en að vera kostnaðarsöm viðbrögð við fátækt eins og oft heyrist. Með samþættingu ólíkra málaflokka er hægt að ná betri árangri bæði fyrir velferð einstak- linganna og samfélagið. Það er t.d. óþolandi að geðfatlaðir komist ekki út af stofnunum vegna húsnæðisleysis og bati þeirra sé þannig hindraður og þeim jafnvel valdið afturför, um leið og dýrmæt stofnanapláss eru tekin frá öðrum sem þurfa á þeim að halda. Þó málefnum sveitarfélaga sé að ýmsu leyti þröngur stakkur skorinn, þar eð verkefni þeirra og tekjustofnar eru að drjúgum hluta ákveðin af ríkisvaldinu, eru ýmsir möguleikar til samfélagsbreytinga á sveitarstjórnarstiginu ef andi og viðleitni Alþýðufylkingarinnar ræður ferðinni og fjöldinn fylgir henni eftir. Við eigum ekki að láta eins og það skipti litlu hvernig er stjórnað meðan við bíðum eftir byltingunni. Lífið hefst ekki þá, heldur þarf alþýðufólk að lifa og þrífast þangað til það getur tekið öll völd í landinu og loksins gerst húsbændur á eigin heimili. Berskjaldaða fólkið okkar Börn Lág laun standa leikskólakerfinu fyrir þrifum. Það á að hækka þau til muna um leið og gera þarf meiri hæfniskröfur til starfsfólks, því til að bera uppi faglegt uppeldis- og menntastarf fyrir ung börn þarf nóg af faglærðu starfsfólki. Við viljum að leikskólapláss séu tryggð fyrir öll börn sem eru orðin tveggja ára. Fyrir börn sem eru yngri er best að vera sem mest hjá foreldrum sínum. Á meðan fæðingarorlof nær ekki tveim árum þarf þó að brúa bilið með því að byggja ungbarna-leikskóla og leggja mikinn metnað í notalegt umhverfi fyrir þau yngstu. Í fyllingu tímans munu húsin nýtast vel, því þá má fækka börnum á hverri deild og sinna hverju og einu betur. Borgin á líka að byggja upp framboð á þægilegum og áhugaverðum stöðum þar sem foreldrar í fæðingarorlofi geta dvalið og hitt aðra. Í grunnskólum þurfa laun kennara að hækka og starfsaðstæður að batna, m.a. með minni bekkjum svo meiri tími gefist fyrir hvern og einn nemanda. Auka þarf áhrif foreldra á stjórnun skóla. Bækur og önnur námsgögn eiga að vera endurgjaldslaus, sem og heitar máltíðir í hádeginu fyrir öll börn. Taka verður upp sérstaklega metnaðarfulla stefnu fyrir skólabörn með annað móðurmál en íslensku til þess að tryggja velferð þeirra. M.a. þarf að tryggja kennslu í móðurmáli þeirra og tryggja foreldrum þeirra aðgang að upplýsingum og þjónustu á máli sem þau skilja. Foreldrar barna með sérstakar þarfir skulu í samráði við skólayfirvöld hafa val um hvort þau senda börn sín í skóla án aðgreiningar eða sérskóla sem sniðinn er fyrir þeirra þarfir. Til þess að það sé í alvörunni val, þarf hvort tveggja að vera vel fjármagnað, því sérþörfum er ekki hægt að mæta almennilega í fjársvelti. Þjónustusamningar borgarinnar við einkaskóla eiga að vera bundnir þeim lágmarksskilyrðum að ekki sé greiddur út arður af rekstri þeirra og launastefna þeirra sé í samræmi við launastefnu borgarinnar. Velferðarmál Til að hámarka velferð íbúanna á borgin að láta til sín taka við að koma í veg fyrir fátækt með öllum ráðum og mæta þörfum fólksins þar sem þær eru. Framfærslustyrkur þarf að hækka þannig að hægt sé að lifa á honum. Sem flestum þarf að hjálpa til að geta framfleytt sér af eigin rammleik. Aflétta þarf átthagafjötrum fátækra með því að fella niður skilyrði um að hafa búið í sveitarfélaginu ákveðinn tíma til að eiga rétt á félagslegu húsnæði eða öðrum velferðarstuðningi. Íbúar sem vegna fötlunar eða heilsuleysis búa í búsetuúrræðum á vegum borgarinnar eiga að jafnaði að ráða sem mestu sjálfir um líf sitt og njóta friðhelgi einkalífs. Borgin á að koma upp endurhæfingarúrræði fyrir fólk sem þarf að læra að fóta sig í lífinu eftir óreglu og/eða afbrot frá unglingsárum. Reykjavík á að koma upp mannsæmandi aðstöðu fyrir hælisleitendur, svo þeir geti notið fullra mannréttinda meðan þeir dvelja hér. Borgin þarf að taka til þeirra ráða sem hún hefur til að aflétta heimsóknabanni, einangrun og annarri vanvirðandi eða ómannúðlegri meðferð. Samgöngu- og skipulagsmál Samgöngumál Leggja þarf áherslu á að efla almenningssamgöngur og gera notkun þeirra aðgengilegri. Þær verða að vera félagslega reknar á hagkvæman hátt og gjald fyrir notkun þeirra að vera mjög lágt, helst ekkert. Vegna þess að það er allra hagur að þær séu aðlaðandi, þurfa ökutæki að vera góð, tímatöflur og leiðakerfi að ganga upp og ferðir að vera á réttum tíma. Góðar og skilvirkar almenningssamgöngur til framtíðar gætu falist í rafknúnu lestakerfi sem gæti verið neðanjarðar að hluta, eftir landslagi og þéttleika byggðar, til að leiðir séu greiðari. Alþýðufylkingin styður að Reykjavíkurflugvöllur verði í Vatnsmýrinni um fyrirsjáanlega framtíð eða þar til önnur og betri lausn finnst á hlutverki hans. Reykjavíkurborg á að hreinsa götur og gangstéttar oftar. Skipulagsmál Vernda þarf ásýnd og mannvirki eldri hverfa almennilega og fara af mikilli varúð í breytingar, sérstaklega ef um niðurrif er að ræða. Koma verður í veg fyrir að auðmenn geti yfirtekið skipulagsvaldið í krafti lóðaeigna og knúið fram byggingamagn sem umturnar byggðinni reglulega og ber nágranna ofurliði í þeim tilgangi einum að tryggja auðmönnum hámarksgróða. Þétting byggðar á ekki að fela í sér að öllu sé hrúgað í gömul, viðkvæm hverfi heldur þarf að huga að því að öll hverfi þróist þannig að gott verði að búa þar og þjónusta haldist þar við. Einnig er mikilvægt að alls staðar sé stutt í aðlaðandi útivistarsvæði fyrir börn og fullorðna. Húsnæðismál Húsnæði er lífsnauðsyn, sem samfélagið á að koma í veg fyrir að auðmenn hafi að féþúfu. Borgin á að taka frumkvæði að bæði bygg-ingarframkvæmdum og húsnæðiskaupum og auka íbúðarhúsnæði á sínum vegum og sem rekið er félagslega, til þess að tryggja hag-stæðasta verð fyrir fólkið, ekki bara þá sem spjara sig ekki á almennum markaði, heldur eiga allir sem vilja að geta fengið félagslega rekið íbúðarhúsnæði við hæfi. Stefna ber að því að að jafnaði sé framboð á íbúðarhúsnæði aðeins meira en eftirspurn, bæði til að geta betur mætt óvæntum áföllum (á borð við Vestmannaeyjagos) og til þess að skortur þrýsti ekki húsnæðisverði óeðlilega langt upp. Vaxtaokur er einn aðalvandinn í húsnæðis-málum og til að leysa hann á borgin að gang-ast fyrir stofnun félagslega rekinnar lána-stofnunar, sem verði hvorki rekin í gróðaskyni né sem ölmusa, heldur sem þjónusta við alla borgarbúa. Borgin ætti sjálf að fá lánaþjónustu og aðra fjármálaþjónustu hjá félagslega reknu fjármálafyrirtæki, og losna þannig við kostnað af vöxtum. Borgin þarf að tryggja nóg framboð á litlum, ódýrum lóðum og lækka lóðaverð og til að fleiri geti byggt en stórfyrirtæki í byggingariðnaði. Umhverfis- og auðlindamál Alþýðufylkingin berst gegn allri markaðsvæðingu, einkavæðingu og rányrkju á auðlindum náttúrunnar. Félagslega rekin orkufyrirtæki eiga að sjá fyrir orku og hreinu og ómenguðu vatni á eins hagstæðan hátt og mögulegt er. Úthýsa þarf sérhagsmunum og gildismati auðvaldsins. Stöðva skal útþenslu í nýtingu háhitasvæða í nágrenni Reykjavíkur, þar sem af henni hlýst veruleg mengun og annar umhverfisvandi, og mikil orka fer í súginn með heitu afgangsvatni við raforkuframleiðslu úr jarðhita. Auka má nýtingu á því heita vatni sem þegar fellur til með aukinni ræktun í gróðurhúsum í landi borgarinnar og nágrenni. Þannig má auka matvælaframleiðslu í nánd við þéttbýlið, auka atvinnu og innlenda verðmætasköpun og spara flutninga. Heitt afgangsvatn ætti líka að nýta meira í bræðslulagnir undir gangstéttum og götum. Orkuveitan á að byggja alþjóðlega samvinnu um nýtingu jarðhita á þeirri meginreglu að auðlindirnar og nýting þeirra séu í félagslegri eigu. Sé það uppfyllt á ráðgjöf Orkuveitunnar að lúta lögmálum viðskipa með þjónustu eða þróunarsamvinnu. Við viljum draga úr flugeldasprengingum og tilheyrandi loft- og hávaðamengun í kring um áramót, með því að borgin leggi björgunarsveitunum til peninga svo þær séu ekki háðar flugeldasölu og með því að hún haldi sínar eigin flugeldasýningar í stað þess að allur almenningur sé skjótandi upp sprengjum. Starfsfólkið okkar Kjaramál Alþýðufylkingin vill innleiða vinnustaðalýðræði þar sem það er hægt, svo við viljum m.a. að borgin setji reglur um að starfsfólk á vinnustöðum borgarinnar geti sett næstu yfirmenn sína af ef það er nauðsynlegt, að starfsemi og bókhald stofnana borgarinnar verði gegnsæ, að starfsfólk geti sjálft sett vinnustöðum sínum jafnréttistefnu, umhverfisstefnu o.s.frv. Laun borgarstarfsmanna, embættismanna borgarinnar og kjörinna fulltrúa á að jafna þannig að munur á hæstu og lægstu launum verði ekki meiri en tvöfaldur. Borgin á að útrýma kynbundnum launamun hjá sér með gegnsæju launakerfi. Atvinnumál Borgin á að taka frumkvæði í margs konar verðmætaskapandi atvinnurekstri í framleiðslu og þjónustu, þar á meðal bæjarútgerð. Þannig má auka tekjumöguleika borgarinnar og um leið skapa störf við hæfi fyrir þá sem eiga erfitt uppdráttar á almennum vinnumarkaði. Fólki af erlendum uppruna þarf að tryggja jafnan aðgang og öðrum, að störfum sem hæfa menntun þeirra og hæfni. Borgin taki aftur til sín rekstur sem hefur verið einkavæddur undanfarna áratugi eftir því sem við verður komið, svo sem akstur strætisvagna, snjómokstur, malbikun, sorphirðu, ýmislegt viðhald o.s.frv. Innkaupastefna Reykjavíkurborg á að beina viðskiptum sínum eins og kostur er burt frá fyrirtækjum eða ríkjum sem fremja svívirðu, svo sem með ólöglegu hernámi, þjóðarmorðum eða stórfelldum umhverfisspjöllum. Þessi stefnumál eru ekki listi af loforðum sem við ætlum að efna bara ef við fáum hreinan meirihluta í borgarstjórn, heldur baráttumarkmið fyrir reykvíska alþýðu. Alþýðan hefur aldrei fengið neitt gefins, heldur hefur hún barist fyrir öllu sínu og mun þurfa að gera það áfram meðan við búum í stéttskiptu samfélagi. Hver á að ráða þessu landi? Verið með í baráttunni um ykkar eigin framtíð! Alþýðufylkingin er vinstriflokkur sem leggur áherlu á að virkja alþýðuna til baráttu gegn alræði auðstéttarinnar. Lykillinn að breyttu samfélagi almenningi til hagsbóta er félagsvæðing fjármálakerfisins og annarra innviða samfélagsins. Leggðu lóð þitt á vogarskálina og hafðu samband við Alþýðufylkinguna. Formaður: Þorvaldur Þorvaldsson s. 895-9564 vivaldi@internet.is Varaformaður: Vésteinn Valgarðsson s. 862-9067 vangaveltur@yahoo.com


Featured Posts
Recent Posts
Archive
Search By Tags
No tags yet.
Follow Us
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page