top of page

Lög Alþýðufylkingarinnar

1. Alþýðufylkingin er stjórnmálasamtök. Heimili hennar og varnarþing er í Reykjavík en félagssvæðið er Ísland allt.

2. Tilgangur samtakanna er sá að berjast fyrir hagsmunum alþýðunnar á Íslandi í lengd og bráð, fyrir jöfnuði og félagsvæðingu, fyrir jafnrétti, mannréttindum, umhverfisvernd og sjálfstæði þjóðarinnar, gegn valdi og forréttindum auðsstéttarinnar. Tilgangi sínum hyggjast samtökin ná með því að skipuleggja samtakamátt íslenskrar alþýðu í stjórnmála- og almennri hagsmunabaráttu.

3. Félagar geta þeir orðið sem samþykkja stefnuskrá samtakanna, greiða félagsgjöld og taka þátt í starfi þeirra eftir aðstæðum.


4. Grunneiningar samtakanna eru aðildarfélög sem markast af sveitarfélögum, einu eða fleirum þar sem minnst 3 félagsmenn starfa. Aðildarfélögin vinna að útbreiðslu á stefnu og áhrifum Alþýðufylkingarinnar á sínu starfssvæði og vinna að uppbyggingu á starfsemi í nágrenninu þar sem ekki er starfsemi fyrir. Aðildarfélögin halda aðalfund árlega og setja sér lög sem rúmast innan þessara laga. Aðildarfélögin senda framkvæmdastjórn samtakanna skýrslu um starfsemi sína einu sinni á ári og oftar ef óskað er.

5. Æðsta stofnun samtakanna er landsfundur. Reglulegur landsfundur skal haldinn fyrir 1. apríl ár hvert. Á landsfundi skilar framkvæmdastjórn skýrslu um starfið á undangengnu tímabili og reikningum yfir fjárreiður samtakanna. Landsfundur setur samtökunum stefnuskrá og lög og breytir þeim eftir atvikum. Landsfundur kýs forystu samtakanna og markar þeim stefnu og starfsáherslur á komandi tímabili. Landsfundur ákveður félagsgjald og gerir fjárhagsáætlun. Komi upp aðkallandi mál getur framkvæmdastjórn samtakanna boðað til aukalandsfundar sem hefur sama ákvörðunarvald og reglulegur landsfundur í þeim málum sem hann tekur fyrir. Reglulegan landsfund skal boða með minnst mánaðar fyrirvara en aukalandsfund má boða með skemmri fyrirvara ef nauðsyn ber til. Landsfundur er opinn öllum félagsmönnum.


6. Æðsta stofnun samtakanna milli landsfunda er miðstjórn. Landsfundur kýs formann, varaformann, ritara, gjaldkera sem mynda framkvæmdastjórn. Þeir sitja og í miðstjórn ásamt 3 til viðbótar kjörnum á landsfundi. Enn fremur skulu aðildarfélögin tilnefna 2 fulltrúa hvert í miðstjórn. Miðstjórn skal koma saman minnst einu sinni á ári en milli funda ber framkvæmdastjórn ábyrgð á starfi samtakanna og skilar miðstjórn skýrslu um starfið. Forfallist einhver úr framkvæmdastjórn til lengri tíma getur miðstjórn skipað í hans stað fram að næsta landsfundi.


7. Í öllu starfi samtakanna skal ríkja lýðræðislegur andi sem byggir á samstöðu um stefnuna og málefnalegum skoðanaskiptum um hana. Öllum trúnaðarmönnum samtakanna ber skylda til að hlúa að samheldni samtakanna og tryggja réttláta málsmeðferð innan þeirra í öllum málum. Einfaldur meirihluti skal að jafnaði ráða úrlausn mála, nema annað sé tekið fram.

8. Lögum þessum má aðeins breyta á landsfundi með 2/3 hlutum atkvæða. Tillögum til lagabreytinga skal skila til framkvæmdastjórnar 2 mánuðum fyrir landsfund og skulu þær kynntar í fundarboði. Ef nauðsyn þykir má víkja frá þessari reglu með afbrigðum sem samþykkt eru af einföldum meirihluta fundarmanna. Komi fram tillaga um slit samtakanna þarf hún 3/4 hluta atkvæða á landsfundi til að ná fram að ganga og skal þá sá landsfundur ráðstafa eignum samtakanna í samræmi við tilgang þeirra.



Samþykkt á stofnfundi 12. janúar 2013, með breytingum frá landsfundi 8.-9. nóvember 2013, 11.-12. mars 2017 og 6. - 7. október 2018.

bottom of page