top of page
Stefnuskrá Alþýðufylkingarinnar

Stefnuskrá Alþýðufylkingarinnar

Samþykkt á framhaldsstofnfundi 16. fabrúar, 2013

Alþýðufylkingin er baráttutæki íslenskrar alþýðu til að bæta hag sinn með því að heimta sitt úr höndum auðstéttarinnar. Til þess er nauðsynlegt að efla lýðræði, pólitískt og efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar og vinda ofan af markaðsvæðingu sem hefur aukist á flestum sviðum undanfarna áratugi.

 

Alþýðufylkingin berst skilyrðislaust gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu, NATO og öðrum bandalögum heimsvaldasinna. Alþýðufylkingin beitir sér gegn óheftum fjármagnsinnflutningi til landsins og hvers konar skerðingu á fullveldi þjóðarinnar. Einnig styður Alþýðufylkingin baráttu annarra þjóða fyrir eigin fullveldi og gegn hvers konar arðráni og kúgun. Ísland á að beita sér í þágu friðar og réttlætis á alþjóðavettvangi.

 

Félagsvæðing – jöfnuður – mannréttindi – framfærslutrygging

 

Alþýðufylkingin berst fyrir jöfnuði. Til þess er nauðsynleg umfangsmikil félagsvæðing í hagkerfinu. Með félagsvæðingu er ekki aðeins átt við ríkisrekstur eða annað félagslegt eignarhald heldur verði markmið rekstrarins annað og víðtækara en bókhaldslegur hagnaður: Hagur almennings og samfélagsins í heild verði í öndvegi, viðkomandi starfsemi lúti lýðræðislegum ákvörðunum og stefnumörkun og enginn geti haft hana sér að féþúfu.

 

Lykilatriði er að öll fjármálastarfsemi verði félagslega rekin svo hún hætti að soga til sín stóran hluta verðmæta úr hagkerfinu til ágóða fyrir fámennan minnihluta. Þannig skapast mikið svigrúm til að reisa myndarlega velferðarkerfið við og styrkja alla innviði samfélagsins. Einnig skapast með því færi á að verðmætin skili sér til þeirra sem skapa þau með vinnu sinni, og þannig til samfélagsins. Með því að létta vaxtaklafa af vöruverði og húsnæðisskuldum almennings má bæta lífskjörin og stytta vinnutíma. Koma þarf á gegnsæju launakerfi í landinu með hóflegum launamun og launatöxtum sem farið er eftir, og banna launaleynd. Þannig verður m.a. hægt að tryggja launajöfnuð kynjanna og koma í veg fyrir auðsupphleðslu og einokun.

 

Jöfnuður og jafnrétti verði meginregla í öllu samfélaginu. Komið verði með raunhæfum aðgerðum í veg fyrir mismunun á grundvelli kynferðis, kynþáttar, kynhneigðar, búsetu og samfélagsstöðu að öðru leyti. Úrskurður í ágreiningsmálum verði að kostnaðarlausu fyrir aðila, þar á meðal fyrir dómstólum, þannig að réttarfar ráðist ekki af fjárhagsstöðu.

 

Öllum sem ekki geta unnið fyrir sér á almennum vinnumarkaði verði tryggð mannsæmandi framfærsla, án þess að þurfa að kaupa sér lífeyrisréttindi. Undið verði ofan af núverandi lífeyriskerfi sem byggist á sérstakri skattlagningu og söfnun í sjóði sem ætlað er að standa undir lífeyrisgreiðslum með áratuga braski á fjármálamörkuðum, en eru dæmdir til að glatast þar að verulegu leyti. Þess í stað verði komið á samræmdu félagslegu lífeyriskerfi sem tryggir öllum sömu upphæð til framfærslu sem þess þurfa með, hvort sem ástæðan er öldrun, örorka, veikindi, atvinnuleysi eða annað. Reynt verði að skapa öllum skilyrði til að virkja starfsfærni sína í þágu samfélagsins. Starfslok verði sveigjanleg og að nokkru háð vilja hvers og eins.

 

Innviðir samfélagsins

 

Alþýðufylkingin beitir sér fyrir endurreisn heilbrigðiskerfisins. Aukin félagsvæðing í hagkerfinu býr til svigrúm til að veita meira fé til heilbrigðismála. Skapa þarf aðstöðu til að öll heilbrigðisstarfsemi geti verið félagslega rekin eða farið fram á vegum hins opinbera, svo fjármunir nýtist betur og leitast við að ná samkomulagi við heilbrigðisstarfsfólk um það fyrirkomulag. Markmiðið verði að allir geti fengið þá heilbrigðisþjónustu sem þeir þurfa eftir því sem tækni og þekking leyfir, án endurgjalds og að sem mestu leyti í sínu heimahéraði. Heilsugæslan verði efld og bættri lýðheilsu gefið aukið vægi. Tannlæknaþjónusta lúti sömu reglum og önnur læknisþjónusta og lyfjaframleiðsla og lyfjaverslun verði hluti af opinberri heilbrigðisþjónustu.

 

Alþýðufylkingin beitir sér fyrir eflingu menntakerfisins. Skólakerfið á að vinna markvisst að persónulegum og félagslegum þroska íslenskra ungmenna í anda réttlætis og sanngirni. Lögð verði áhersla á jafnrétti til náms og símenntun við hæfi. Stefna í menntamálum skal miðast við að menntun sé hluti af lífsgæðum sem allir eiga rétt á og samfélagsleg verðmæti fremur en markaðsvara.  Leitast skal við að miða nám við þarfir og hæfileika hvers einstaklings. Skólakerfið í landinu verði allt félagslega rekið og gjaldfrjálst.

 

Alþýðufylkingin beitir sér almennt fyrir auknu vægi hins félagslega í samfélaginu á kostnað markaðsvæðingar, sérstaklega á sviðum almannaþjónustu sem allir þurfa á að halda og umsjón með auðlindum, sem eiga að vera sameign þjóðarinnar. Nauðsynlegt er að losa samfélagið undan þeim vítahring kapítalismans sem gerir kröfu um sífellda stækkun hagkerfisins.

 

Auðlindir – Vernd náttúru og umhverfis

 

Alþýðufylkingin beitir sér markvisst fyrir því að auðlindir lands og sjávar verði raunveruleg sameign þjóðarinnar, óframseljanlegar og að arðurinn skili sér til þjóðarinnar. Fiskveiðiheimildir verði innkallaðar og þeim úthlutað til skamms tíma í senn meðan unnið verði að framtíðarskipan í sjávarútvegi. Komið verði í veg fyrir að útgerðarmenn geti braskað með fiskveiðiréttindi.

 

Alþýðufylkingin berst gegn því að auðmenn sölsi undir sig vatns- og orkuauðlindir þjóðarinnar. Til þess er nauðsynlegt að þær séu reknar félagslega, með hóflega nýtingu og þarfir þjóðarinnar að leiðarljósi. Allur hagnaður af auðlindunum skal skila sér í bættum lífskjörum þjóðarinnar.

 

Alþýðufylkingin berst gegn því að náttúru landsins, landgæðum og umhverfi sé spillt til hagnaðar fyrir einstaka auðmenn. Stemma skal stigu við of mikilli samþjöppun og einokun í landbúnaði og ferðaþjónustu sem getur valdið óhóflegri ofníðslu á landi. Einnig skal koma í veg fyrir að auðmenn geti yfirtekið skipulagsmál í sveitarfélögum í krafti lóðareigna. Stórauknu fé skal veitt til þess að vinna gegn náttúruspjöllum og viðhalda og auka landgæði.

 

Atvinnuvegir - skattar

 

Alþýðufylkingin beitir sér fyrir því að þróa fjölbreytilega atvinnuvegi í landinu. Öruggt framboð fæðu og annarra nauðsynja verði að leiðarljósi, aukinn jöfnuður og bætt lífskjör almennings. Félagslegu framtaki verði beitt þar sem það þjónar grunnmarkmiðunum en þó getur einkarekstur átt rétt á sér í verðmætaskapandi framleiðslu og þjónustu sem ekki flokkast undir innviði samfélagsins. Markmið atvinnuveganna á ekki að vera að þenjast endalaust út til að auka gróða og ójöfnuð, heldur að uppfylla þarfir samfélagsins og skapa útflutningstekjur til að standa straum af innflutningi á vörum og þjónustu til landsins.

 

Alþýðufylkingin beitir sér gegn fjármagnsinnflutningi til landsins, bæði í formi lánsfjár og fjárfestinga, nema nauðsyn beri til af tæknilegum ástæðum og í undantekningartilvikum. Skilyrði fyrir fjárfestingu í íslensku atvinnulífi ætti að vera búseta í landinu og að viðkomandi sé hluti af því samfélagi sem starfsemin er í. Atvinnuvegirnir eiga að stuðla að búsetu um allt land með skynsamlegri nýtingu lands og annarra auðlinda og stuðla að jöfnum kjörum óháð búsetu.

 

Alþýðufylkingin beitir sér fyrir því að skattlagning þróist í þá átt að léttast af tekjum almennings og færast í auknum mæli yfir á hagnað fyrirtækja, enda muni þau á móti hagnast á því að oki fjármálafyrirtækja og svokallaðra fagfjárfesta verði létt af þeim.

bottom of page