top of page

Kosningastefnuskrá 2016

Fjögurra ára áætlun Alþýðufylkingarinnar 2016 - 2020
Kosningastefnuskrá 2016
1. Inngangur

Kosningastefnuskrá Alþýðufylkingarinnar 2016 er ætlað að setja fram baráttumarkmið fyrir komandi kjörtímabil á nokkrum meginsviðum samfélagsins. Hún er ekki innantómur loforðalisti heldur forgangsröðun markmiða sem við munum beita okkur fyrir hvort sem verður innan eða utan Alþingis eða bæði.

 

Á grundvelli stefnuskrár flokksins verður leitast við að setja fram áætlun um ferli breytinga, þeim forgangsraðað og þær settar í innbyrðis samhengi og hvernig árangur á einu sviði kallar fram möguleika á öðrum sviðum.

 

Við leggjum áherslu á að hagsmunir alþýðunnar ná ekki fram að ganga fyrir það eitt að velviljaðir þingmenn kippi málunum í lag með lagabreytingum og þingsályktunum. Heldur er það lykilatriði að það takist að fylgja baráttumálunum eftir með virkri fjöldahreyfingu. Alþýðan hefur aldrei fengið neitt á silfurfati frá auðstéttinni og svo mun heldur ekki verða í framtíðinni.

 

Ekki er heldur hægt að líta á pólitíska stefnu sem samansafn af ákvörðunum, sem eru óskyldar hver annarri, heldur sem samhengi ákvarðana og markmiða sem eru innbyrðis háð og er forgangsraðað eftir möguleikum á hverjum tíma.

 

Einnig leggjum við áherslu á að stéttarhagsmunir alþýðunnar verði lagðir til grundvallar öllum ákvörðunum og baráttumálum. Framtíðarhagsmunir þar sem tekist er á um samfélagsgerðina og eftir hvaða leiðum gæðum samfélagsins er skipt. Það er eina leiðin til að skapa aukinn jöfnuð og velmegun allra.

 

Við munum því ekki taka undir þann áróður að bæta megi lífskjörin í landinu með auknum hagvexti þar sem veltan í hagkerfinu er aukin og látið í veðri vaka að allir fái sinn hlut í auknum umsvifum, sem einnig skili auknum skatttekjum til að draga úr ójöfnuði. Veruleikinn er sá að í kapítalismanum fylgir auknum hagvexti jafnan aukinn ójöfnuður og skuldsetning, enda taka auðmenn sér ríflegan hagnað út úr aukinni veltu. Aukning skatttekna dugar skammt til að vega upp aukinn ójöfnuð og loks falla skuldirnar á samfélagið þegar tjaldið fellur.

 

Þess vegna þarf að fara eðlisólíka leið til að breyta samfélaginu. Þar verður aukið vægi hins félagslega á kostnað markaðslausna að vera í forgrunni. Lykilatriði er félagsvæðing innviða samfélagsins, þar sem fjármálakerfið og nauðsynleg samfélagsþjónusta við alla er í fyrirrúmi.

 

Í kosningastefnuskrá þessari verður því leitast við að gera grein fyrir helstu baráttumarkmiðum Alþýðufylkingarinnar á næstu árum, innra samhengi þeirra og samhengi þeirra við framtíðarsýn flokksins til betra samfélags.

Inngangur
 
2. Félagsvæðing í hagkerfinu

Aukið vægi hins félagslega á kostnað markaðsvæðingar er lykillinn að breytingum í þágu alþýðunnar.

 

Markaðslögmál kapítalismans ráða ferðinni á öllum sviðum samfélagsins. Því hefur verið haldið stíft fram að það sé hagkvæmt og auki verðmætasköpun, sem allir hagnast á. Svo er þó alls ekki, þvert á móti.

 

Undanfarna áratugi hefur markaðsvæðingin lagt undir sig nær öll svið samfélagsins og teygir sig æ lengra. Þannig hafa auðlindir þjóðarinnar, mörg framleiðslufyrirtæki, velferðin í vaxandi mæli, bankar sem áður voru í ríkiseigu o.fl. verið færð auðmönnum í hendur til að maka krókinn.

 

Tilgangurinn er ekki sá að auka skilvirkni og hagkvæmni, öllum til hagsbóta eins og haldið er fram, heldur sá að auka svigrúm auðstéttarinnar til að ávaxta vaxandi gróða enn frekar á kostnað fjöldans. Það er ástæðan fyrir auknum ójöfnuði, versnandi lífskjörum og aukinni skuldsetningu almennings meðan ævintýralegur auður hefur safnast á færri hendur.

 

Þessa þróun ætlar Alþýðufylkingin ekki bara að stöðva, heldur snúa við og beita sér fyrir umfangsmikilli félagsvæðingu í hagkerfinu eftir ákveðinni forgangsröðun.

 

Innviðir samfélagsins

Innviðir samfélagsins verði félagslega reknir í þágu allra án gróðasöfnunar.

 

Hverjir eru innviðir samfélagsins? Það eru þeir þættir samfélagsins sem tilheyra öllum eða þjónusta sem allir hafa þörf fyrir.

 

•   Fjármálakerfið

•   Heilbrigðiskerfið

•   Menntakerfið

•   Félagsleg þjónusta

•   Húsnæðismál

•   Orkuöflun

•   Samgöngukerfið

•   Fjarskipti

•   Vatnsveitur og fráveitur

•   Auðlindir þjóðarinnar

 

 

Félagsvæðing innviða samfélagsins er nauðsynleg en gerist þó ekki í einu vetfangi. Taka þarf markviss skref í þá átt, án þess að þau séu tekin til baka með hinni höndinni jafnharðan. Alþýðan þarf að beita samtakamætti sínum til að knýja fram kerfisbreytingar sem skerða foréttindi auðstéttarinnar.

 

 

Félagsvæðing fjármálakerfisins

Félagsvæðing fjármálakerfisins getur sparað samfélaginu hundruð milljarða á ári.

 

Sparnaður af félagsvæðingu fjármálakerfisins varðar ekki bara gróða bankanna, heldur víkur hún til hliðar spákaupmennsku og margvíslegum fjármálagjörningum sem miða að því að soga verðmæti út úr raunhagkerfinu til einstakra auðmanna án þess að nein verðmætasköpun eigi sér stað. Kapítalisminn krefst hámarksgróða og reynir því að auka veltuna í hagkerfinu ár frá ári. Það er kallað hagvöxtur. Undanfarna áratugi hefur sá vöxtur að mestu leyti orðið í fjármálaviðskiptum og spákaupmennsku sem ekki skapa nein verðmæti. En aukin velta gefur auðmönnum aukin tækifæri til að draga til sín gróða út úr veltunni, og þegar kemur að skuldadögunum hefur skuldunum verið velt yfir á samfélagið, en auðmennirnir komast undan með gróðann

 

Þannig er samfélaginu stöðugt haldið í spennitreyju með kröfu um niðurskurð til velferðarmála til að auðmennirnir geti dregið sér meira um leið og peningarnir sem annars gætu farið til velferðar fara í að borga kreppuskuldir. Félagsvæðing fjármálakerfisins er því skilyrði fyrir því að hægt sé að byggja upp aðra innviði samfélagsins á félagslegum forsendum.

 

Hvernig er hægt að koma á félagsvæðingu fjármálakerfisins? Það getur auðvitað ráðist af því hvað næst samkomulag um og hve víðtæk samstaða næst um málið í samfélaginu. Best væri að bankar og önnur fjármálafyrirtæki fengju skamman frest til að afhenda starfsemi sína ríkinu, sem svo gæti hafist handa um að laga hana að þörfum samfélagsins. Eftir því hve andstaða fjármálaauðvaldsins verður hörð gegn félagsvæðingu, verður að fylgja henni eftir með harðari aðgerðum. Einn möguleiki er að ýta þeim út af markaðnum með félagslegum ríkisbanka sem þeir geta ekki keppt við. Þá getur ríkið bannað arðgreiðslur út úr bönkum, annað hvort með lögum eða með því að eiga meirihluta í þeim og nota eigandavald til þess að lækka í staðinn vexti af skuldum heimila og fyrirtækja í verðmætaskapandi starfsemi. Líklegt er þó að beita þurfi lagasetningum til að banna eða hindra rekstur fjármálastofnana í hagnaðarskyni. Slík lög gætu m.a. bannað að ríkið tryggi innistæður hagnaðardrifinna banka og sett aftur á okurmark: efri mörk leyfilegra vaxta umfram verðbólgu.

 

Þau vandamál sem hafa lengi verið kennd við ranglátt kerfi verðtryggingar munu hverfa þegar vextir hverfa úr jöfnunni. (Það mun ekki gerast öfugt.) Þegar okurvextir eru afnumdir verður verðtryggingin með öðrum orðum ekki vandamál. Afnám hennar sem slíkrar er því ekki forgangsmál Alþýðufylkingarinnar.

 

Brýnast er að létta vaxtaklyfjunum af húsnæðislánum almennings. Síðan er hægt að gera tilraunir með að lækka vexti af lánum til verðmætaskapandi fyrirtækja með skilyrði um gegnsæja verðmyndun og að sýnt sé að lækkaðir vextir skili sér til neytenda í lækkuðu vöruverði. Þannig er hægt að bæta lífskjör fólksins í landinu.

 

Með því að spákaupmennska og hvers kyns brask verði tekið út úr fjármálakerfinu minnka stórlega möguleikar auðmanna til að taka til sín gróða út úr samfélaginu. Stærri hluti auðmagnsins færist í félagslegt eignarhald og aukið lýðræði verður í fjármálastjórn og atvinnuvegum. Þannig minnka einnig möguleikar auðmanna til að ná kverkataki á samfélaginu og ná fram vilja sínum með kúgunaraðgerðum.

 

Með félagsvæðingu fjármálakerfisins er enn fremur hægt að hindra að hagkerfið þurfi að stækka ár frá ári í hið óendanlega á kostnað auðlinda og umhverfisins. Kapítalisminn hefur í för með sér ófrávíkjanlega kröfu um stöðugan hagvöxt og hámarksgróða. Það er grunnorsök kreppunnar sem er óhjákvæmilegur fylgifiskur kapítalismans. Þó að afleiðingum kreppunnar sé ætíð velt yfir á herðar alþýðunnar, hirða fáir auðmenn gróðann af aukinni framleiðni og veltu í hagkerfinu.

 

Þegar hætt verður að stunda fjármálastarfsemi í hagnaðarskyni á kapítalískum markaði verður loks hægt að vinda ofan af kröfunni um hagvöxt. Það minnkar offramleiðslu, offjárfestingu og rányrkju á auðlindum. Það dregur einnig úr sóun og úrgangi. Þegar ekki er lengur hægt að fjárfesta endalaust í gervifjárfestingum hefur hagnaðarkrafan tilhneigingu til að minnka og miðast við það sem hægt er að fjárfesta í raunverulegum verðmætum. Með minnkandi hagnaðarkröfu verða meiri verðmæti eftir hjá fólkinu sjálfu, sem vinnur við að skapa þau og þannig er lagður grunnur að auknum jöfnuði og gegnsæi í hagkerfinu. Þetta er ennfremur leiðin að því að skapa jafnvægi í hagkerfinu og koma þannig í veg fyrir kreppur sem hafa skert lífsgæði almennings til þessa.

 

Seðlabankinn á ekki að vera sjálfstæður, hann á að vera félagslegur. Hann á að lúta sömu stefnu og aðrir meginásar íslenska ríkisins og hagkerfisins, lúta hagsmunum alþýðunnar með því að stuðla að jöfnuði og velferð allra landsmanna.

 

Félagslegur rekstur getur verið með ýmsu formi. Ríkisrekin þjónusta við samfélagið er eitt þeirra forma. Sveitarfélög geta eftir atvikum átt og rekið félagslega rekna starfsemi. Samvinnurekstur er einnig vel þekkt form, ekki bara kaupfélög og sparisjóðir heldur einnig annar rekstur. Þá má nefna sjálfseignarstofnanir og félagasamtök sem ekki starfa í gróðaskyni, eins og m.a. er vel þekkt í rekstri endurhæfingar- og meðferðarstofnana.

 

Tryggingar – lífeyrir – framfærslutrygging

Lífeyrir og nauðsynleg tryggingavernd verði réttur allra, sem ekki þarf að kaupa aðgang að.

 

Tryggingastarfsemi er af mörgum toga og skipulögð á mismunandi vegu. Starfsemi tryggingafélaga er í eðli sínu fyrst og fremst fjármálastarfsemi. Þekkt er hvernig eigendur tyggingafélaga hafa rakað til sín gróða og jafnvel gengið gróflega á bótasjóði til að auka eigin hagnað. Svo hefur ríkið lagt þeim til fé til að koma þeim undan gjaldþroti.

 

Í ljósi þess er eðlilegast að ríkið leysi til sín öll tryggingafélög og hefjist handa að samræma tryggingastarfsemi og laga hana á nokkrum árum að þörf landsmanna fyrir tryggingavernd sem greiða mætti að verulegu leyti gegnum skattkerfið. Taka mætti til greina bótakröfur til svokallaðra eigenda sem byggðust á því að þeir hafi sannanlega lagt meira inn í félagið en þeir hafa tekið út.

 

Lífeyrir

Lífeyriskerfið sem innleitt var með uppbyggingu lífeyrissjóðanna er orðið að miklu samfélagsmeini. Það felur í sér miklar þversagnir og getur ekki þjónað hagsmunum almennings. Til að geta skilað tilætluðum lífeyri þarf að ávaxta iðgjöldin mun meira en hægt er til langframa. Þess vegna er nú verið að auka inngreiðslur í sjóðina. Það mun þó ekki skila neinu því það eykur aðeins það fjármagn sem leitar að fjárfestingartækifærum sem ekki eru til. Þetta hefur haldið uppi okurvöxtum í áratugi og þannig valdið almenningi miklu tjóni en ætlaður ávinningur hefur að talsverðu leyti tapast í kreppum. Með miklum yfirþrýstingi á fjárfestingar ýta lífeyrissjóðirnir einnig undir umhverfisspjöll og ósjálfbærni í náttúrunni og hagkerfinu.

 

Alþýðufylkingin stefnir að því að samræma lífeyristryggingu þeirra sem ekki geta unnið fyrir sér hvort sem ástæðan er örorka, elli, atvinnuleysi, veikindi eða annað. Greiðsluskylda í lífeyrissjóði verður afnumin. Séreignarsjóðir verða endurgreiddir en sameignarsjóðir verða yfirteknir af ríkinu sem notar þá til að bæta stöðu þjóðarbúsins og til uppbyggingar innviða samfélagsins. Á móti verður öllum tryggður mannsæmandi lífeyrir þar sem jafnt gengur yfir alla. Þetta mun þýða verulega bætt kjör fyrir langflesta. Lítill minnihluti mun þó lækka í kjörum. Mögulegt er að gera þessa breytingu í áföngum á nokkrum árum. Til lengdar munu sömu lífeyrisgreiðslur til allra stuðla að samstöðu um mannsæmandi lífeyri.

 

Alþýðufylkingin mun beita sér fyrir því að skapa öllum möguleika á að virkja starfsfærni sína í þágu samfélagsins. Það felur m.a. í sér umfangsmikla félagslega atvinnuuppbyggingu þar sem einnig verða atvinnutækifæri fyrir þá sem ekki þola það álag sem miklar kröfur og samkeppni á vinnumarkaði skapa í dag. Hún beitir sér einnig fyrir sveigjanlegum starfslokum þannig að enginn verði sviptur möguleika á að taka þátt í samfélaginu gegnum vinnu ef hann svo kýs þó vissum aldri sé náð. Einnig verði stuðlað að því að auðvelda fólki að minnka vinnu í áföngum eða draga saman seglin eftir þörfum og vilja. Fyrir suma getur það hins vegar verið kostur að hætta störfum fyrr en núverandi aldursmörk segja til um.

 

Fæðingarorlof

Alþýðufylkingin vill taka upp samanlagt tveggja ára fæðingarorlof fyrir tvo foreldra eins barns. Kerfið þarf að einfalda til muna og gera það sanngjarnara. Ein og sama upphæðin á að vera fyrir alla, óháð tekjum, en á svipuðu bili og bætur fyrir aðra sem eru ekki á vinnumarkaði.

Félagsvæðing í hagkerfinu
 
3. Húsnæðismál

Húsnæði fyrir alla án vaxtaklyfja

 

Húsnæðiskreppan hefur á undanförnum árum þrengt mjög að kjörum allrar alþýðu. Vandinn felst ekki fyrst og fremst í skorti á húsnæði heldur vaxtaokri og að húsnæðismarkaðurinn hefur lengi verið ofurseldur fjármálakerfinu. Þúsundir fjölskyldna hafa verið sviptar aleigunni og reknar út á götu undanfarin ár. Hluti þeirra hefur flúið land. Annar hluti er að kikna undan ört hækkandi leigu. Loks hefur nokkur hluti lent á útigangi.

 

Fjármálafyrirtækin stjórna markaðnum með því að hindra aðgang almennings að húsnæðislánum þegar verðið er lágt en lána þá útvöldum fjárfestum til stórtækra uppkaupa á fasteignum. Eftir því sem verðið hækkar er svo smám saman opnað fyrir húsnæðislán til almennings. Og valið verður milli okurvaxta og okurleigu sem einnig ræðst að nokku leyti af okurvöxtum. Þessu verður að linna.

 

Húsnæðisþörfin er grunnþörf og á ekki að vera ofurseld gróðafíkn auðstéttarinnar. Með félagsvæðingu fjármálakerfisins opnast tækifæri til að auka hlut félagslegs fjármagns sem nota má til að lána til húsnæðiskaupa og byggja félagslegt leiguhúsnæði. Alþýðufylkingin mun beita sér fyrir því að fyrir árið 2020 eigi allir kost á vaxtalausu láni til hóflegra íbúðarkaupa eða félagslegu leiguhúsnæði þar sem leigan þarf ekki að standa undir vaxtaokri.

 

Íbúðalánasjóð á að leysa undan fráleitum okurskuldbindingum sínum við fjármálakerfið með lagasetningu sem riftir þeim einfaldlega og heimilar Íbúðalánasjóði að gera skuldir sínar upp.

Húsnæðismál
 
4. Heilbrigðiskerfið: félagsvæðing gegn markaðsvæðingu; uppbygging á landsbyggðinni; heilsugæslan

Endurreisn heilbrigðiskerfisins hefur algeran forgang hjá Alþýðufylkingunni, enda er verkið óvinnandi öðruvísi en sem algert forgangsverk.

 

Það fyrsta sem Alþýðufylkingin gerir ef hún fær tækifæri til þess er að láta Landspítalanum a.m.k. milljarð í té til að nota strax, áður en vinna hefst við nauðsynlegar kerfisbreytingar.

 

Heilbrigðiskerfinu hefur verið leyft að drabbast niður, það stendur stórskaðað eftir áratuga tímabil frjálshyggjunnar, óháð því hvaða borgaralegu stjórnmálaflokkar hafa verið í ríkisstjórn. Það er því sár og vaxandi þörf fyrir að heilbrigðiskerfið verði endurreist á öllum sviðum: spítalarnir og heilsugæslan, á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu. Það þarf að róttækar breytingar á lyfjaiðnaði og lyfjaverslun. Það þarf að taka sálfræðiþjónustu og tannlækningar inn í opinbera heilbrigðiskerfið. Það þarf að auka útgjöld til þessa fjársvelta málaflokks en ekki síst þarf að nota peningana betur í heilbrigðismál og minna í arð handa fyrirtækjum sem lifa á heilbrigðiskerfinu, enda er tilgangur kerfisins, og á að vera, að stuðla að sem bestri heilsu landsmanna.

 

Niðurskurður í heilbrigðismálum er ekki sparnaður, vegna þess að heilsuleysi er dýrt fyrir þjóðfélagið og skerðir lífskjör og efnahag fólks. Við höfum ekki efni á að spara við okkur í heilbrigðismálum.

 

Markmið okkar í heilbrigðismálum er að allir geti fengið þá heilbrigðisþjónustu sem þeir þurfa eftir því sem tækni og þekking leyfir, án tafa og án endurgjalds og að sem mestu leyti í sínu heimahéraði. Þetta eru mannréttindi, og heilbrigðiskerfi sem nær ekki þessu máli er ekki fyrsta flokks.

 

 

Félagsvæðing

Útgangspunktur Alþýðufylkingarinnar er að samfélagið á sjálft að sjá um að reka þá starfsemi sem það borgar fyrir. Það á sjálft að eiga húsnæðið þar sem þessi starfsemi fer fram. Og það á að fjármagna þetta með sínu eigin fé en ekki með lántökum sem bera vaxtakostnað.

 

Auk ríkis og sveitarfélaga sjáum við fyrir okkur að félög og sjálfseignarstofnanir sem reka sjúkrastofnanir ekki í gróðaskyni geti gert það áfram. En heilbrigðisfyrirtæki sem eru rekin í gróðaskyni og borga út arð til eigenda sinna geta ekki vænst meðlags frá samfélaginu.

 

Peningarnir í endurreisnina eiga að koma úr félagsvæðingu fjármálakerfisins, peningar sem núna fara í að borga fjármálakerfinu vexti og eigendum þess arð. Hið opinbera á í staðinn sjálft að veita kerfinu fjármálaþjónustu til að spara því vaxtakostnað.

 

Fyrsta flokks heilbrigðisþjónusta er fyrir alla. Núna leitar fimmti hver Íslendingur sér ekki læknis vegna kostnaðar, sem markaðshyggjumenn réttlæta með tali um kostnaðarvitund. Það er bull sem við munum ekki hlusta á. Heilbrigðisþjónustan á að vera gjaldfrjáls og opinber og borgast með skattfé. Félagsvæðing heilbrigðiskerfisins beinir fjármunum mest þangað sem þörfin er mest þörf.

 

Alþýðufylkingin vill stofna breiðan starfshóp stjórnmálaflokka, hagsmunasamtaka og fræðimanna sem vilja félagslegt heilbrigðiskerfi, sem muni móta tillögur um endurreisn kerfis sem þjónar öllum landsmönnum án endurgjalds. Ef stefna okkar steytir á andstöðu munum við leita fulltingis almennings í þjóðaratkvæðagreiðslum eða með öðrum aðferðum.

 

 

Landspítalinn og nýtt háskólasjúkrahús

Verulegur hluti af húsakosti Landspítalans liggur undir skemmdum vegna niðurníðslu, sumt hentar ekki starfseminni. Það er því augljóst að stórframkvæmdir við Landspítalann eru löngu tímabærar. Vegna þess að Landspítalinn mun verða við Hringbraut  í mörg ár enn, er eðlilegast að halda strikinu við uppbygginu þar og klára án tafa byggingarframkvæmdir þar.

 

Samhliða því þarf að byggja upp smærri sjúkrahús á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess og gera áætlun um annað stórsjúkrahús í framtíðinni.

 

Algjört skilyrði fyrir þessum framkvæmdum er að þær séu alfarið fjármagnaðar af hinu opinbera.

 
 
Hinir spítalarnir á suðvesturhorninu

Alþýðufylkingin vill endurreisa sjúkrahúsin í Hafnarfirði og í Reykjanesbæ, og gefa sjúkrahúsunum á Akranesi og Selfossi innspýtingu. Niðurskurður þar eykur álag á Landspítalann og lengir þar með biðlista. Enduruppbygging léttir þar af leiðandi á LSH, styttir biðlista og bætir því heilbrigðisþjónustuna.

 

 

Spítalarnir á landsbyggðinni

Hnignun sjúkrahúsþjónustu utan höfuðborgarsvæðisins er vandamál sem ekki má afneita. Fæðingardeildir, skurðstofur og fleiri tegundir sjúkrahúsþjónustu eiga að vera aðgengilegar sem víðast á landinu. Þess vegna eigum við að endurreisa og styrkja sjúkrahúsin á Akureyri, Ísafirði, Neskaupstað, Stykkishólmi og víðar, þannig að sem mest sjúkrahúsþjónusta verði í boði í heimabyggð.

 

Heilsugæslan um land allt

Heilsugæslan á að jafnaði að vera staðurinn sem fólk kemur fyrst á þegar það kennir sér meins. Þar á að leysa það sem hægt er þar, og beina fólki rétta leið með það sem heilsugæslan ræður ekki við. Þannig mundu sjúklingar forgangsraðast betur og peningar nýtast betur, fyrir utan það almenna líkamlega og andlega utanumhald sem fólk fær hjá heimilislækni. Við viljum að sálfræðiþjónusta verði tekin inn í starfsemi heilsugæslunnar

 

Lýðheilsa

Besta heilbrigðisvandamálið hlýtur að vera það sem er fyrirbyggt áður en það verður að vandamáli. Við teljum að fræðsla og skilningur almennings á því hvað er hollt og hvað er óhollt sé besta lýðheilsustefnan. Það á jafnt við um mataræði, líkamsbeitingu við vinnu og hreyfingu almennt, misnotkun á löglegum og ólöglegum vímugjöfum, og flest annað sem hefur áhrif á heilsuna. Þetta allt á að kenna strax í grunnskólum. Við viljum taka upp skyldubólusetningar, sem byggist á bestu þekkingu læknavísindana.

 

Alþýðufylkingin mun ekki banna fólki að skaða sína eigin heilsu með líferni sínu, en telur eðlilegt að skattleggja heilsuspillandi hluti og láta skattinn borga meðferð seinna. Við erum fylgjandi skaðaminnkunarstefnu í vímuefnamálum, þannig að fíkn og neysla vímuefna séu skoðuð sem heilbrigðisvandamál en ekki sem glæpur. Alþýðufylkingin mun vegna ekki styðja að áfengisverslun verði gefin frjálsari en hún er nú. Hún mun aftur á móti styðja að bann við sumum tegundum tóbaks verði afnumið, enda erfitt að sjá rökin fyrir því að leyfa tóbak í sumum myndum en banna í öðrum.

 

Alþýðufylkingin mun beita sér fyrir strangari viðurlögum við brotum gegn aðbúnaði og hollustuháttum á vinnustöðum.

 

Geðheilbrigðismál

Aukið og auðveldara framboð á þjónustu heimilislækna og sálfræðinga, sem þegar hefur komið fram, er aðeins lítill hluti af nauðsynlegu átaki í geðheilbrigðismálum. Annað er að stuðla að almennara félagslegu öryggi í þjóðfélaginu. Örvænting um afkomuna, hryggð yfir að geta ekki veitt börnunum sínum besta atlæti, samkeppni um vinnu og neyslu, einangrun, firring á vinnumarkaði og fleiri fylgifiskar kapítalismans skapa þrýsting og skaða á geðheilsu fólks og valda fólki m.a. áföllum, þunglyndi og kvíða. Þessi afleiðing hagkerfisins er sjálfstætt vandamál sem verður aðeins leyst með afleiðingum víðtækrar félagsvæðingar, þar sem m.a. húsnæðisöryggi yrði mun meira, börn kæmust í endurgjaldslausar frístundir og vinnustaðir væru lýðræðislegri, auk þess sem bætur yrðu hækkaðar og skerðingar minnkaðar, til fólks sem er ekki á vinnumarkaði. Því er við að bæta, að það skortir húsnæði fyrir fólk með sérstakar búsetuþarfir, sem þarf bara að byggja og kaupa. Það er óþolandi að flöskuhálsar félagslega kerfisins haldi fólki jafnvel svo misserum skiptir inni á geðdeildum vegna þess að það hafi ekki í önnur hús að venda — það er mannréttindabrot, það skerðir framboð á þjónustu fyrir aðra og er auk þess mjög dýrt.

 

Dæmin sanna, að sterk fylgni er milli þess hvernig fólki gengur að lifa með geðsjúkdómum, og hvernig aðrir þættir lífsins eru. Stærsta verkefnið í geðheilbrigðismálum er því að skrúfa niður í þeim margvíslega þrýstingi sem stendur á fólk úr öllum áttum.

 

Lyfjaiðnaðurinn

Lyfjaframleiðsla og lyfjasala í gróðaskyni er heill heimur af heilsufarslegum, vísindalegum, siðferðislegum og efnahagslegum vandamálum. Alþýðufylkingin vill að allar rannsóknir lyfjafyrirtækja verði birtar og öll hagsmunatengsl þeirra við heilbrigðisstarfsfólk og vísindasamfélagið, auk tengsla við félög sjúklinga og fagfólks. Við viljum banna lyfjaauglýsingar. Þessum reglum viljum við fylgja eftir með ströngum viðurlögum. Við viljum styrkja einkum lækna en líka aðrar heilbrigðisstéttir til endur- og símenntunar, svo hún verði óháð styrkjum lyfjaiðnaðarins. Við viljum verja stórauknu fé til opinberra rannsókna á gömlum og nýjum lyfjum. Við viljum að vísindamenn á vegum hins opinbera fái ítarlegan aðgang að heilbrigðisupplýsingum til þess að nota í rannsóknaskyni.

 

Alþýðufylkingin telur eðlilegt að samfélagið borgi mun stærri skerf af kostnaði við að kaupa lyf, og í sömu andrá að samfélagið sjái sjálft um að dreifa þeim til að fjármunir nýtist sem best ráðstafað í þágu sjúklinganna. Því viljum við ekki að ríkið selji Lyfju, heldur reki hana sem keðju ríkisrekinna lyfjaverslana sem veiti landsmönnum eins hagstæða þjónustu og hægt er og verði hluti af opinberri heilbrigðisþjónustu.

 

Sjúkratryggingar

Alþýðufylkingin ætlar að snúa af þeirri braut markaðsvæðingar sem íslenska heilbrigðiskerfið hefur verið á, og sem stofnun Sjúkratrygginga Íslands er m.a. hluti af skv. tilskipun ESB um samkeppni í heilbrigðismálum. Einkareknar læknastofur hafa þannig verið í samkeppni við einkum Landspítalann um takmarkað fé úr sjóðum SÍ, og þannig hefur samkeppnin dregið úr getu spítalans. Við sjáum ekki hvers vegna einkareknar stofur ættu að vera reknar fyrir, eða niðurgreiddar af skattfé. Við munum því láta Landspítalann fá þá peninga beint, sem hann þarf til að þjóna hlutverki sínu vel. Sjúkratryggingar Íslands verða svo lagðar niður, finni þær sér ekki annað hlutverk heldur en að sprauta gróða í einkarekin heilbrigðisfyrirtæki.

 

Alþýðufylkingin vill setja lög sem banna arðgreiðslur út úr heilbrigðisstofnunum sem þiggja fé frá ríkinu.

 

Mannauður

Það þarf að ráða fleira starfsfólk í heilbrigðisþjónustuna. Við blasir að til þess þarf að hækka launin þar, einkum þeirra lægst launuðu. Löng hefð er fyrir því að vanmeta umönnunarstörf og tímabært að snúa því við.

 

Sérstaklega þarf að fá fleiri heimilislækna, bæði á landsbyggðina og á höfuðborgarsvæðið.

 

Húsakostur

Segja má á húsnæðisvandamál heilbrigðiskerfisins séu af þrennu tagi: húsnæði sem er óhentugt; húsnæði sem er í niðurníðslu og húsnæði sem er of dýrt vegna óuppsegjanlegra leigusamninga. Við viljum setja lög sem banna óuppsegjanlega leigusamninga við opinberar stofnanir og losa þannig heilsugæsluna og spítalana (og reyndar margar aðrar stofnanir) við allt of dýra leigu. Og við munum ekki taka í mál að fjármagn til uppbyggingar komi frá fjármálaauðvaldinu (lífeyrissjóðirnir eru þar innifaldir).

 

Húsnæði sem er niðurnítt þarf að gera upp án tafar. Það er frámunalegt að það þurfi að loka heilu deildunum vegna myglusvepps, vegna þaka eða glugga sem leka og hefur ekki fengist gert við vegna fjársveltis.

 

Tækjakostur

Í nútímalæknisfræði þarf stundum að kaupa mjög dýr tæki. Það er eitt af því sem það kostar að halda uppi góðu heilbrigðiskerfi og kostnaðurinn er reyndar hverfandi lítill ef hann er borinn saman við útgjöld þjóðfélagsins til t.d. bankakerfisins eða útgerðarinnar. Þess vegna mun Alþýðufylkingin ekki taka annað í mál en að Landspítalinn og aðrar heilbrigðisstofnanir fái stóraukið fjármagn til þess að kaupa ný og nauðsynleg tæki, líka til þess að spara viðhaldskostnað á gömlum og lélegum tækjum.

Heilbrigðiskerfið
 
5. Menningar- og menntamál

Menntun er hluti af lífsgæðum sem allir eiga rétt á og samfélagsleg verðmæti fremur en markaðsvara.

 

Sú mikla endurreisn sem bíður menntakerfisins mun til langs tíma borga sig ríkulega, en til skamms tíma mun hún óhjákvæmilega kosta sitt, eins og gildir um fleiri innviðu samfélagsins. Peningarnir til að standa undir því eiga að koma út úr félagsvæðingu fjármálakerfisins, eða réttara sagt: við eigum að hætta að sóa þeim í ofsagróða fyrir auðvaldið, og fara í staðinn að verja þeim í uppbyggilega hluti eins og menntun.

 

Við viljum að ríkið reki það sem ríkið borgar. Á því verða þó að vera undantekningar. Við viljum t.d. ekki banna einkarekna skóla, en ef þeir vilja fá peninga frá ríkinu mega þeir ekki vera reknir í gróðaskyni.

 

Skólakerfið

Aðalnámskrá grunnskóla og framhaldsskóla á ekki að vera samin af stjórnmálamönnum heldur skólamönnum. Menntun á að vera eftirsóknarverð bæði fyrir nemendur og skólafólk. Nemendur þurfa að hafa gaman af og sjá gagnsemina í því að læra hugsun, skilning, samskipti, virðingu, samvinnu, gagnrýni og margvíslega aðra kunnáttu. Námið á að snúast um getu og þroska nemandans, ekki að undirbúa hann fyrir að vinna eitthvert tiltekið starf, heldur til að spjara sig sem best, sama hvert leiðin liggur í lífinu.

 

Skólafólk þarf að geta nýtt hæfileika sína í starfi og fengið mannsæmandi laun fyrir það. Menntun skólafólks á öllum skólastigum þarf að meta drjúgt til að umbuna þeim sem sækja sér aukna þekkingu á uppeldis- og menntamálum.

 

Það þarf að fjölga leikskólakennurum — það er á könnu sveitarfélaganna, en það þarf að gerast. Það verður aðeins gert með því að auka fjárframlögin: hækka launin þannig að ófaglærðir leikskólastarfsmenn fái hvata til að mennta sig, og faglærðir leikskólakennarar halist í vinnu á leikskólum.

 

Þökk sé harðri baráttu framhaldsskólakennara hafa þeir náð verulegum kjarabótum fyrir sína stétt. Það er leiðin sem aðrar stéttir skólafólks geta þurft að vera tilbúnar fyrir: leið stéttabaráttu, til að rétta hlut sinn.

 

Alþýðufylkingin vill gefa opinberum skólum á öllum stigum meira svigrúm til að bjóða upp á sérhæfingu, svo skólakerfið geti mætt þörfum og smekk fleiri nemenda (og kennara). Til dæmis skóla sem bjóða upp á sérlega mikil tækifæri til íþróttaiðkunar, tónlistariðkunar, sköpunar, umönnunar dýra, útiveru eða verklegra mennta, svo nokkuð sé nefnt.

 

Við viljum nýja og fjölbreyttari móðurmálskennslu þar sem meiri áhersla verði lögð á sköpun, tilfinningu fyrir málinu og ánægju af því.

 

Alþýðufylkingin vill að heimspeki sé gerð að skyldunámsgrein á öllum skólastigum. Við viljum líka að efsti bekkur grunnskóla byrji að búa nemendur undir bílpróf og kenni undirstöðuatriði þjóðfélagsins, þannig að hver 15-16 ára manneskja skilji aðalatriði í stjórnmálum, í efnahagsmálum, auk mannréttinda og umhverfismála.

 

Öll grunnskólabörn þurfa að fá heiðarlega kennslu um áhrif eiturlyfja, í stað einhliða áróðurs. Skilningur er betri forvörn heldur en ótti.

 

Öll grunnskólabörn þurfa að fá spennandi fræðslu um eðlilegt kynlíf áður en þau læra óeðlilega hluti af klámi. Það þarf að gerast snemma, því þau byrja að stelast fyrr en við höldum.

 

Jafn aðgangur

Alþýðufylkingin beitir sér fyrir jöfnum aðgangi allra að skólakerfinu. Brottfall nemenda af erlendum uppruna úr framhaldsskólum er ískyggilega mikið. Til að stemma stigu við því er nauðsynlegt að börn innflytjenda fái sérstakan stuðning í skólakerfinu og nám í móðurmálinu sem dugar þeim til að halda því við svo að það verði þeim og samfélaginu styrkur en ekki veikleiki.

 

Enn fremur þarf að afnema lokun opinberra framhaldsskóla fyrir 25 ára og eldri.

 

Háskólinn

Háskóli Íslands á að mennta fólk og afla nýrrar þekkingar.

 

Háskóli Íslands á að slíta fjárhagsleg tengsl við fyrirtæki sem rekin eru í gróðaskyni og vera þess í stað alfarið kostaður af ríkinu, þannig að hagsmunaárekstrar valdi síður skekkju í útgefnum rannsóknarskýrslum.

 

Háskólinn á að kenna vel. Við viljum að námsmat sé strangt og nemendurnir færir. Við viljum því að kennarar við háskólann læri að kenna áður en þeir byrja á því. Við viljum að akademísk ábyrgð fylgi akademísku frelsi, þannig að háskólinn geti beitt þá einhverjum viðurlögum sem misfara með stöðu sína í akademíunni, t.d. með ritstuldi eða rógi í búningi fræðimennsku – menn eiga ekki að geta borið fyrir sig akademískt frelsi til þess að vera óheiðarlegir.

 

Háskóli Íslands á að koma upp öflugri deild í sjávarlíffræði og Ísland að koma sér í fremstu röð í heiminum á því sviði. Skólinn á að hætta að kenna gervifræði eins og guðfræði og borgaralega hagfræði.

 

Lifir svo lengi sem lærir

Háskóli Íslands á að vera háskóli allra landsmanna og aðgangur að honum á að vera opinn öllum sem standast almenn inntökuskilyrði. Þar má aldrei leggja á skólagjöld og Lánasjóður íslenskra námsmanna þarf að veita fólki námslán þótt það sé fullorðið. Þá er algjör nauðsyn að slíta öll tengsl Lánasjóðsins við bankakerfið: þegar fólk fær námslán á það einfaldlega að fá lánið hjá Lánasjóðnum og aldrei að koma nálægt banka. Námslán eiga að taka mið af grunnframfærslu. Við viljum taka upp blandað kerfi námsstyrkja, frammistöðutengdrar lánaniðurfellingar og að á meðan fólk vinnur á Íslandi eftir nám, séu námslán fryst í tíu ár en felld niður að þeim tíma liðnum.

 

Til að auka aðgengi almennings að þeim gæðum sem háskóli ber með sér, viljum við viðhalda þeirri hefð að hver sem er megi sitja hvaða tíma sem er í skólanum. Við viljum líka að háskólinn standi fyrir fyrirlestrum og námskeiðum á landsbyggðinni. Við viljum að háskólinn starfi með öðrum menntastofnunum af öllu tæi, báðum til gagns.

 

Menningarmál

Alþýðufylkingin vill efla menningarstarfsemi á öllum sviðum í landinu og losa hana úr fjötrum markaðshyggjunnar. Opinber menningarstefna á að geta tryggt blómlegt menningarlíf óháð því hvað auðmenn vilja leggja því til í auglýsingaskyni á hverjum tíma.

Með félagsvæðingu fjármálakerfisins og annarra innviða samfélagsins skapast mikið svigrúm til að veita fé til menningarmála. Alþýðufylkingin vill efla til muna þær opinberu menningarstofananir sem þegar eru við lýði svo þær verði frekari lyftistöng fyrir aðra starfsemi á sama sviði eftir atvikum.

Alþýðufylkingin vill koma upp öflugri kvikmyndadeild innan Listaháskóla Íslands og efla kvikmyndasjóð.

Alþýðufylkingin vill auðvelda listamönnum að lifa af listinni og stuðla að aukinni og vandaðri umfjöllun um menningu og listir, t.d. í Ríkisútvarpinu.

Alþýðufylkingin vill að Hús íslenskra fræða rísi sem fyrst.

Alþýðufylkingin vill byggja myndarlegt náttúruminjasafn til að gera einstakri náttúru Íslands skil og varðveita og sýna merkilega gripi.

Við viljum átak í fornleifarannsóknum til að bjarga fornminjum sem liggja undir skemmdum um allt land. Þá viljum við einnig gera átak í skráningu og björgun margvíslegra menningarminja svosem mannvirkja, manngerðs umhverfis, verkkunnáttu o.fl.

 

Fjölmiðlar

Hver fjölmiðill á að gefa upp eigendur sína, fjármögnun og ritstjórnarstefnu. Koma á fram hver skrifar frétt eða ber ábyrgð á henni, og geta heimilda nema efnisleg ástæða sé til nafnleyndar.

 

Ríkisútvarpið á áfram að verða flaggskip íslenskrar fjölmiðlunar. Það á ekki að vera á auglýsingamarkaði heldur vera alfarið fjármagnað af ríkinu. Við viljum frekar hafa áfram pólitískt skipað útvarpsráð heldur en útvarpsráð þykist ekki vera pólitískt en er það samt. Við viljum breyta því aftur úr opinberu hlutafélagi í ríkisstofnun.

 

List- og verknám

Í sögu aðalnámsskráa fyrir framhaldsskóla á Íslandi undanfarin 30 ár var lagt upp með að gera list- og verkgreinum hærra undir höfði og áttu allar þessar námsskrár að tryggja það með fjölbreyttu kerfi námsbrauta og áfanga við allra hæfi. Í öllum tilvikum hefur þetta mistekist gersamlega.

 

Ástæður þess eru væntanlega ýmsar og margar samtvinnaðar. Ein er sú að um of hefur verið einblínt á stúdentspróf sem eins konar lykil að lífinu og stórauknar kröfur um menntun, jafnvel framhaldsmenntun á háskólastigi til að sinna störfum, sem þó eru enn illa launuð og má þar nefna leik- og grunnskólakennara sem dæmi. Þá er mjög mikill þrýstingur frá foreldrum og raunar samfélaginu öllu að nemendur velji sér stúdentsbrautir á framhaldsskólastigi og má jafnvel tala um snobb fyrir stúdentsprófinu í þessum efnum. Nú er svo komið að þjóðin býr við skort á iðnaðarmönnum en offramboð á háskólamenntuðu fólki í mörgum greinum.

 

Af hverju fór þetta svona?

 

Meginástæða þess að námsskrárútgáfur og námsskrárbreytingar hafa í raun engu skilað inn í list- og verknámið er einfaldlega sú að aukið fjármagn hefur ekki fylgt bókaútgáfunni, en þetta nám er miklu dýrara en hið hefðbundna bóknám. Sem dæmi má nefna að oft þarf mikla sérhæfingu í tækjabúnaði og húsnæði og enn fremur mega námshópar ekki vera stærri en svo að kennarinn ráði vel við að sinna öllum (eða að fleiri en einn kennari sé í hverjum námshópi) og getur þetta jafnvel verið öryggisatriði.

 

Allt tal um nýjar námsskrár og breytt viðhorf í þjóðfélaginu gagnvart list- og verknámi verður hjóm eitt ef aukið fjármagn fæst ekki til að kenna þessar greinar svo sómi sé að. Alþýðufylkingin mun beita sér fyrir því að fjármagn til náms í list- og verkgreinum verði stóraukið, en það er grundvallarforsenda þess að þessu námi verði gert jafn hátt undir höfði og hefðbundnu bóknámi.

Menningar- og menntamál
 
6. Umhverfis- og auðlindamál
 
Auðlindir – Vernd náttúru og umhverfis

Alþýðufylkingin vill að auðlindir lands og sjávar verði raunveruleg sameign þjóðarinnar, óframseljanlegar og að arðurinn skili sér til þjóðarinnar í bættum lífskjörum. Alþýðufylkingin berst gegn því að náttúru landsins, landgæðum og umhverfi sé spillt til hagnaðar fyrir einstaka auðmenn. Hófleg nýting og langtímaþarfir þjóðarinnar eiga að vera að leiðarljósi.

 

Við viljum taka til baka breytingar á vatnalögum frá 1998, 2006 og 2011 og að vatn – bæði grunnvatn og yfirborðsvatn – verði þjóðareign á ný. Við viljum gera það með lagasetningu sem þjóðnýtir vatnið. Landeigendur fái það ekki bætt, enda þurftu þeir ekkert að borga fyrir það þá, og enda geti þeir áfram notað það vatn sem þeir þurfa til sinna þarfa, þótt þeir hafi ekki þann ótakmarkaða ráðstöfunarrétt á því sem beinn einkaeignarréttur gefur þeim.

 

Sé olíu að finna á Drekasvæðinu viljum við að hún sé látin liggja kyrr.

 

Umhverfismál

Umhverfismálin eru brýnustu úrlausnarefni samtímans. Vistkerfum jarðarinnar er ógnað í sífellt vaxandi mæli úr öllum áttum þannig að lífsskilyrði á jörðinni eru í mikilli hættu.

 

Vandamálin birtast m.a. í rányrkju á auðlindum, auknu magni gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti og súrnun sjávar, þynningu ósonlagsins og mikilli uppsöfnun þrávirkra úrgangsefna sem komið er fyrir í mörgum af fátækustu löndum heims. Helstu orsakir umhverfisvandans stafa af sókn auðstéttarinnar eftir hámarksgróða. Með því að auka framleiðslu stöðugt er gengið hratt á auðlindir jarðarinnar á kostnað komandi kynslóða. Víða er stór hluti framleiðslu og flutninga knúinn áfram með jarðefnaeldsneyti, sem hefur undanfarnar tvær aldir safnað svo miklu af gróðurhúsalofttegundum í andrúmsloftið að hlýnun jarðar er komin að bráðum hættumörkum.

 

Með alþjóðavæðingu auðmagnsins er framleiðsla flutt heimshorna á milli eftir því hvar vinnuaflið er ódýrast og umhverfisvernd er minnst. Þetta kostar mikla flutninga með hráefni og síðar með vörur á markað. Einnig hefur þetta í för með sér að samfélag sem verður háð viðkomandi starfsemi hefur tilhneigingu til að slaka á kröfum í umhverfismálum til að missa ekki frá sér störf. Eins er umhverfisverndarsinnum oft stillt upp frammi fyrir spurningunni hvort þeir vilji stuðla að atvinnuleysi og á hverjum það bitni.

 

Ráðandi stéttir reyna að stilla upp umhverfismálunum þannig að lausn þeirra sé einstaklingsbundin og ráðist af hugkvæmni og samvisku hvers og eins við sorpflokkun o.fl. Einnig reyna þær að auka forréttindi sín með því að binda rétt til mengunar við kvóta sem gengur kaupum og sölum. Þannig reynir auðstéttin að kaupa sig frá vandanum sem þó heldur áfram að aukast.

 

Öll helstu umhverfisvandamál og ógnanir við vistkerfi heimsins eiga sér frumorsök í eðli og hagsmunum auðstéttarinnar og kröfu hennar um sífelldan hagvöxt og hámarksgróða. Aukin velta í hagkerfinu knýr fram aukna ásókn í auðlindir og orkunotkun til að byggja undir hagvöxtinn. Þetta er tilfellið þó svo að offramleiðsla hafi verið á heimsvísu undanfarna áratugi. Lausnir umhverfisvandamálanna verða að byggjast á samfélagslegum lausnum og ákvörðunum, bæði pólitískum og tæknilegum, sem ekki stjórnast af gróðamöguleikum auðmanna.

 

Til að stemma stigu við aðsteðjandi umhverfisvanda er nauðsynlegt að losa samfélagið undan oki hins gróðadrifna fjármálakerfis. Þegar fjármálakerfið verður rekið á félagslegum grunni án þess að soga til sín öll verðmæti úr hagkerfinu verður svigrúm til að auka fjölbreytni í atvinnu og verðmætasköpun, sem þá þarf ekki að standa undir himinháum fjármagnskostnaði. Þannig minnkar þörfin fyrir orkufreka flutninga með vörur heimshorna á milli.

 

Framleiðsla miðast meira við þarfir fólksins en ekki þarfir auðmagnsins fyrir sífellt auknar fjárfestingar til að ávaxta aukinn gróða.

 

Þetta er lykillinn að því að vinda ofan af umhverfisógninni og koma á sjálfbæru samfélagi sem ekki gengur á rétt komandi kynslóða með græðgi fámennrar auðstéttar. Vaxandi hreyfing í samfélaginu tekur umhverfismálin alvarlega og vinnur ötult starf til lausnar á þeim. Til að auka árangur þess og til að bjarga jörðinni út úr vítahring mengunar og sóunar auðstéttarinnar er mikilvægt að skilningur vaxi innan umhverfishreyfingarinnar á því að kapítalisminn verður aldrei grænn.

 
6.1 Sjálfbær landbúnaður

Þróunarmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru 17 talsins. Markmiðin fela í sér 15 ára aðgerðaráætlun sem stefnir að því að bæta lífskjör alls mannkyns og stuðla að verndun jarðarinnar. Sjálfbærni er lykillinn að því að áætlunin gangi eftir, sbr. samþykkt Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna 25.-27. september 2015.

 

Stjórnmálaöfl á Íslandi þurfa og verða að taka afstöðu til þessara markmiða og marka stefnu sem kjósendur geta sameinast um. Hér er verið að tefla um framtíð plánetunnar og lífsskilyrði komandi kynslóða.

 

Búvörur eru meðal nauðþurfta fólks og því hagsmunamál allra að framleiðsla þeirra standi á traustum grunni og sé sjálfbær í umhverfislegu jafnt sem efnahagslegu tilliti. Við munum styðja gerð búvörusamninga sem tryggja bændum skikkanlega afkomu og þar með öllum landsmönnum innlendar landbúnaðarafurðir.

 

Einhver mesti mengunarvaldur sögunnar er landbúnaðariðnaðurinn. Nauðsynlegt er að færa hann í sjálfbært horf. Ísland er í góðri aðstöðu, sökum smæðar og einangrunar, til að stíga afgerandi skref í þá átt að skapa sjálfbæra matvælaframleiðslu.

 

Það þarf að vinna úttekt á mengun lands, sjávar og lofts frá landbúnaðinum og hvers konar breytingar geti leitt af sér sparnað – sem ástæða er til að ætla að verði umtalsverður, og ætti að nýta í þágu aukinnar sjálfbærni. Helstu markmiðin sem felast í sjálfbærni eru fæðuöryggi (nægur matur), matvælaöryggi (heilnæmur matur), atvinnusköpun, fjölskyldubúskapur, viðhald byggðar til sveita með virkum tengslum við menningartengda ferðaþjónustu, aðgerðir gegn samþjöppun: verksmiðjubúskap og jarðasöfnun auðmanna eða fyrirtækja, velferð dýra og náttúru og skynsamleg landnýting.

 

Ill meðferð á skepnum er óforsvaranleg. Við viljum setja ströng dýraverndarlög og veita stuttan aðlögunartíma til að hlíta þeim, sérstaklega hvað varðar aðbúnað svína og alifugla. Nauðsynlegt er að fjölga sláturhúsum til þess að ekki þurfi að keyra mörghundruð kílómetra með skepnur til slátrunar.

 

Alþýðufylkingin boðar markvissa eflingu lífræns búskapar, þar sem tekið verði tillit til orkusparnaðar og útblásturs gróðurhúsalofttegunda, auk hollustu matvæla. Við viljum stuðla að staðbundinni framleiðslu og neyslu búsafurða til að draga úr langflutningum. Við viljum viðhalda líffræðilegri fjölbreytni dýra og gróðurs, þar með talið gömlu góðu íslensku búfjárkynjanna, sem og villtra dýra, ekki síst laxa og silungastofna.

 

Jarðvegsvistkerfi Íslands er auðlind og eign þjóðarinnar. Eðlilegt er að landbúnaður sé stundaður á Íslandi til að nýta þau verðmæti sem í jarðvegsauðlindinni felast í þágu þjóðarinnar og þeirra sem að landbúnaði starfa.

 

Tryggja þarf landbúnaðinum aðgang umfram aðra landnotkun að besta landbúnaðarlandinu og stuðla að því að það sé í hverju tilviki nýtt til þeirrar tegundar búrekstrar sem best hæfir. Því viljum við gera rammaáætlun um samþættaða vernd og nýtingu lands til ræktunar, úthagabeitar og annarra nota. Í þeirri áætlun skal stefnt að skógrækt eða endurheimt votlendis á landi sem hefur verið rutt eða ræst fram án þess að það sé nýtt sem tún eða akrar. Með því að fylla upp í óþarfa framræsluskurði vonumst við til að minnka magn gróðurhúsalofttegunda sem frá landinu stafar, og um leið endurskapa vistkerfi fugla o.fl. dýra.

 

Til sjálfbærnisjónarmiða telst áskilnaður um efnahagslega sjálfbærni, að afturkræfni umhverfisáhrifa sé fyrirséð og að endurreisn hruninna vistkerfa sé ekki hamlað.

 

Eðlilegt er að landbúnaðurinn sé varinn fyrir samkeppni við framleiðslu sem byggi á ósjálfbærum framleiðsluháttum, illri meðferð búfénaðar eða notkun láglaunavinnuafls. Opinber stuðningur við landbúnað á fela í sér eflingu jarðvegsauðlindarinnar og uppbyggingu í sjálfbærum landbúnaði til framtíðar.

 

Við viljum gefa landbúnaðinum sérkjör á raforku: selja bændum rafmagn á kostnaðarverði. Við viljum að gróðurhúsabændum verði gefið heitt affallsvatn þar sem því verður við komið. Setja þarf af stað átak til að þróa og innleiða umhverfisvæna orkugjafa fyrir landbúnaðarvélar.

 

Veigamesti opinberi stuðningurinn við landbúnaðinn er þó að koma félagsvæddu fjármálakerfi á laggirnar, og losa bændastéttina, eins og aðrar stéttir, undan áhyggju- og skuldaklafa vegna fjármagnskostnaðar.

 

6.2 Sjávarútvegur

Stefna Alþýðufylkingarinnar í sjávarútvegsmálum byggist á umhverfisvernd, sjálfbærni, jöfnuði, réttlæti og stöðugleika sjávarútvegsbyggðanna.

 

Íslenska kvótakerfið dugar vel til að stjórna stofnstærðum og verjast hruni fiskistofna en öðru máli gegnir um úthlutun aflaheimilda. Það er einfaldlega siðlaust að útgerðir „eigi“ óveiddan afla og að hann geti gengið kaupum og sölum milli útgerðarmanna, svo ekki sé talað um útleigu á óveiddum afla.

 

Þróa verður leiðir til að vinda ofan af eignfærslu kvótans og tryggja að afraksturinn af auðlindinni skili sér til þjóðarinnar. Innkalla þarf allar fiskveiðiheimildir og úthluta verulegum hluta þeirra til byggðarlaga sem byggja tilvist sína á sjávarútvegi og geta tekið við aflanum til vinnslu. Full greiðsla skal koma í ríkissjóð fyrir veiddan fisk enda er auðlindin sameign þjóðarinnar.

 

Óheimilt verði að braska með veiðiheimildir og skal ónýttum veiðiheimildum skilað til endurúthlutunar eftir forgangsröðun sem tekur tillit til samfélagslegra þátta. Ef útgerðarmenn kveinka sér undan minnkandi gróða í eiginn vasa og reyna að hindra breytingar, verður ríkið að vera tilbúið að leysa þá undan okinu og yfirtaka stærstu útgerðarfélögin.

 

Við viljum gefa handfæraveiðar frjálsar og stuðla að auknu vægi umhverfisvænna veiðarfæra. Við viljum efla vísindin í sjávarútveginum og m.a. auka rannsóknir á áhrifum veiðarfæra á hafsbotninn. Þá þarf að gera átak í þróun og innleiðingu umhverfisvænna  orkugjafa fyrir fiskiskipaflotann.

 

6.3 Ferðaþjónusta

Í flestum löndum, sem við viljum bera okkur saman við, er ferðaþjónustan skattlögð á einn eða annan hátt. Víða tíðkast að ferðamenn greiði svokallaðan borgarskatt fyrir hverja gistinótt og yfirleitt er fullur virðisaukaskattur innheimtur af ferðaþjónustuaðilum. Þá eru brottfarar- eða komugjöld innheimt af ferðamönnum víða um heim.

 

Á Íslandi hefur álag á byggð og náttúru af völdum ferðamennsku, bæði innlendrar og erlendrar, vaxið mjög á seinni árum og sér ekki fyrir endann á þeirri þróun. Sjálfsagt og eðlilegt er að bæði ferðaþjónustuaðilar og ferðamenn greiði fyrir uppbyggingu þjónustu við greinina af hálfu ríkis og sveitarfélaga. Þetta má gera á ýmsa vegu, svo sem með hækkun virðisaukaskatts í efsta þrep, upptöku „borgarskatta“ fyrir sveitarfélög og komu- eða brottfarargjalda, en tryggja verður að þessi gjöld verði eyrnamerkt þeirri uppbyggingu og viðhaldi, sem þarf til að ferðamennska á Íslandi fái þrifist með sómasamlegum hætti, og svo auðvitað öryggismálin. Má nefna sem dæmi ferðamannastaði, vegi, merkingar, fræðslu o.s.frv.

 

Eftir því sem ferðamennskubólan verður stærri, þess harðari verður efnahagsskellurinn þegar hún springur, og það mun hún gera. Þess vegna er nauðsynlegt að hægja á honum eða minnka hann. Mikilvægt samhliða markmið er að draga úr flugumferð, enda er hún stórkostlega mengandi fyrir andrúmsloftið.

6.4 Raforkuframleiðsla, sæstrengur og stóriðja

Þrátt fyrir nýsamþykkta rammaáætlun um raforkunýtingu hér á landi og þá almennu skoðun að auðlindir þjóðarinnar skuli vera sameign, hafa bankarnir enn uppi áform um fjármögnun á stóraukinni raforkuframleiðslu á Íslandi næstu árin, sem mundi tæma möguleika á frekari raforkuvinnslu í landinu.

 

Á sama tíma eru uppi áform um að leggja sæstreng til Skotlands til að flytja út raforku til Evrópu. Það mundi auka þrýstinginn á að auka framleiðsluna og hækka orkuverð til almennings innan lands til mikilla muna.

 

Allt ber þetta að þeim brunni að gera auðmönnum kleift að taka út gróða af orkuauðlindinni en velta kostnaði af gríðarlegri fjárfestingu yfir á samfélagið ásamt stórhækkun á orkuverði til almennings og framleiðslufyrirtækja.

 

Alþýðufylkingin mun berjast einbeitt fyrir því að halda orkuvinnslu og orkudreifingu í félagslegum rekstri og hindra að auðmenn geri sér það að féþúfu á kostnað almennings.

Umhverfis- og auðlindamál
 
7. Verslun, þjónusta og iðnaður

 

Arðrán og offramleiðsla

Þrálátustu meinbugir kapítalískrar verslunar, þjónustu og iðnaðar eru annars vegar arðrán á vinnandi fólki, hins vegar sterk tilhneiging til offramleiðslu, sem stuðlar að kreppu.

 

Það er ekki nóg að kenna fyrirtækjum um arðrán. Þau eru sjálf undir þrýstingi hluthafa sem vilja fá sem mestan arð, og lánardrottna sem krefjast vaxtagreiðslna. Hvort tveggja er á kostnað þeirra sem framleiða verðmætin með vinnu sinni.

 

Félagsvæðing

Meginstefna okkar í efnahagsmálum, félagsvæðingu fjármálakerfisins, ætti öðrum þræði að auðvelda rekstur verðmætaskapandi fyrirtækja. Aðgangur að félagslegri fjármálaþjónustu léttir vaxtaokinu og sjálftöku fjármálaauðvaldsins af sjálfum fyrirtækjunum og minnkar þar með þörf þeirra fyrir arð en eykur svigrúm þeirra til að borga góð laun.

 

Við viljum að ríkið verði virkur gerandi í atvinnulífinu, bæði með því að eiga hlut í verðmætaskapandi fyrirtækjum og þrýsta á um að þau verði rekin á félagslega ábyrgan hátt, og að arðgreiðslur til hluthafa verði innan velsæmismarka. Þá viljum við almennt ekki að ríkið selji (eða gefi) hlutabréf í fyrirtækjum sem hafa fallið því í skaut í uppgjörum við kröfuhafa bankanna.

 

Við viljum breyta samkeppnislögum á þann veg að þau taki ekki til umsvifa ríkisins eða sveitarfélaganna.

 

Við viljum að á ríkisreknum vinnustöðum séu sköpuð verkefni fyrir fólk sem stendur höllum fæti á almennum vinnumarkaði, sem séu samþætt við ýmis meðferðarúrræði, svo það fái tækifæri í samræmi við getu til að sjá sjálft fyrir sér með vinnu þar eða annars staðar.

 

Í stofnunum og fyrirtækjum sem ríkið á vill Alþýðufylkingin auka raunverulegt vinnustaðalýðræði, meðal annars með því að starfsfólk taki þátt í stefnumótun og forgangsröðun, og að það geti sett af millistjórnendur eða yfirmenn ef því finnst það nauðsynlegt. Með vinnustaðalýðræði hafa starfsmenn einnig beint vald til að setja fyrirtækjunum jafnréttisstefnu, umhverfisstefnu og önnur þjóðþrifamál, og fylgja þeim eftir.

 

Það felst í félagsvæðingu atvinnuveganna að framleiðslan miðist við þarfir fólksins, en ekki við þarfir auðmagnsins fyrir sífellt auknar fjárfestingar og gróða. Atvinnuvegirnir eiga líka að stuðla að búsetu um allt land með skynsamlegri nýtingu lands og annarra auðlinda og stuðla að jöfnum kjörum óháð búsetu.

 

Við viljum gera eignarhald allra fyrirtækja, félaga, fjölmiðla, fasteigna og annarra eigna gegnsætt. Við viljum setja lög um að ef eigandi eignar gefur sig ekki fram, verði litið svo á að enginn eigandi sé og þá sé viðkomandi eign þjóðnýtt. Sú þjóðnýting yrði auðvitað bótalaus, enda fannst enginn eigandi.

 

Við viljum setja lög sem heimila bótalausa þjóðnýtingu fyrirtækja sem taka óhóflegan arð út úr rekstrinum handa hluthöfum eða sem verða uppvís að okri eða samsæri gegn neytendum. Einnig að hægt verði að þjóðnýta lykilfyrirtæki í viðkvæmum byggðarlögum ef eigendur vilja flytja starfsemi þeirra burt og skaða með því byggðina. Einnig ef fyrirtæki beita vinnustöðvunum til að knýja fram andfélagsleg markmið, eins og að trufla frumvörp um kvóta eða skatta, spilla áhrifum verkfalla eða spilla fyrir félagsvæðingu í hagkerfinu. Einnig ef fyrirtæki verður gjaldþrota og sýnt er að gjaldþrotið skaði hagsmuni samfélagsins.

 

Gjaldþrotum heiðarlegs fólks ætti að fækka til muna við félagsvæðingu fjármálakerfisins og við félagslega rekið fjármálakerfi ætti gjaldþrot ekki að vera dauðasök. En til að hindra að gjaldþrot séu misnotuð (kennitöluflakk) þarf að afnema takmarkaða ábyrgð hlutafélaga. Eigendur þeirra eiga að bera fulla ábyrgð á þeim.

 

Skattar og tollar

Við viljum færa skatta frá tekjum almennings og yfir á hagnað fyrirtækja, enda munu þau hagnast á því að fá fjármálaþjónustu félagslegs fjármálakerfis í stað vaxtaklafa. Fjármagnstekjuskattur á ekki að vera lægri en efsta þrep tekjuskatts.

 

Við viljum nota skatta og tolla til að hafa áhrif á samfélagslega þætti eins og umhverfismál, orkunýtingu og byggðamál, m.a. með því að taka upp landshlutatengdar skattaívilnanir.

 

Umhverfisspjöll

Umgengni atvinnulífsins við umhverfið fer eftir því hvaða mörk því eru sett. Alþýðufylkingin vill setja rammar skorður við því að umhverfinu sé spillt í sérhagsmunaskyni. Mikilvægast er þó að koma böndum á sókn auðstéttarinnar í hámarksgróða – sem veldur gengdarlausri ásókn í allar auðlindir og sparnaði í umhverfis-, gæða- og öryggismálum. Í ljósi þess að mannkynið ætlar að búa í þessu umhverfi næstu aldirnar, þá á ósjálfbærni ekki rétt á sér í umhverfismálum.

 

Verslunin

Félagsvæðing fjármálakerfisins léttir vaxtaklafanum af vöruverði (og verði verslunarhúsnæðis) og liðkar því stórlega fyrir allri eðlilegri verslunarstarfsemi. Hún ætti þannig að skila sér í lægra vöruverði til almennings.

 

Við viljum draga úr mengandi og orkufrekum vöruflutningum heimshorna á milli. Það á að setja vörutoll sem er reiknaður út frá flutningskostnaði, mældum í mengun og eyðslu á einnota orkugjöfum. Á hinn bóginn viljum við beina neyslu landsmanna í umhverfisvænni áttir, m.a. að rækta og framleiða meira í landinu, kaupa meira frá löndum sem eru nær okkur heldur en fjær, flytja meira með skipum en flugvélum og síðast en ekki síst stuðla að því að fólk geti eignast vandaðri hluti, sem verða ekki jafnfljótt að rusli í næstu landfyllingu.

 

Iðnaðurinn

Ef Alþýðufylkingin fær nokkuð um það að segja, verða ekki fleiri náttúruperlur eyðilagðar í þágu orkufrekrar stóriðju eða annarra sérhagsmuna. Eina stóriðjan sem við styðjum er sú sem þjónar hagsmunum alþýðunna. Á meðan byggt er úr steypu í landinu viljum við að sement sé framleitt í íslenskri sementsverksmiðju á Íslandi. Á meðan íslenskur landbúnaður notar tilbúinn áburð viljum við að hann sé framleiddur á Íslandi. Íslenskar skipasmíðastöðvar ættu að smíða og laga íslensk skip.

 

 

Kjarasamningar

Alþýðufylkingin hafnar framsali á samningsrétti einstakra verkalýðsfélaga. Sjálfstæðir kjarasamningar, og sjálfstæði í vinnudeilum, verða hér eftir sem hingað til gagnlegasta baráttutæki alþýðunnar á friðartímum. Stéttasamvinnustefna er alltaf í þágu auðvaldsins og á forsendum þess og hefur aldrei gagnast vinnandi fólki, þótt hún sé kölluð fallegum nöfnum á borð við „stöðugleiki“ eða „friður á vinnumarkaði“. Því höfnum við henni.

 

Við viljum setja lög um lágmarkslaun (og lágmarksbætur) sem miðist við að fólk njóti lágmarksframfærslu. Það er algjört lágmark! Samhliða því viljum við hækka launataxta ríkisstarfsmanna og skapa þannig þrýsting á einkarekin fyrirtæki að hækka taxtana í kjarasamningum við sitt starfsfólk.

 

Við viljum setja lög um keðjuábyrgð: að verktaki beri ábyrgð á undirverktaka, þannig að ekki verði komist upp með svik, mansal, kennitöluflakk, kjarasamningsbrot eða félagsleg undirboð í skjóli þess að undirverktaki sé ábyrgur.

 

Við viljum setja lög um að íslenskir kjarasamningar gildi innan íslenskrar lögsögu, þannig að verkamannaleigur geti ekki níðst á fátæku fólki í skjóli EES-samningsins.

 

Launamunur í landinu á að vera ekki meira en þrefaldur. Launamyndun á að vera gegnsæ og launaleynd bönnuð. Það á að fara eftir töxtum. „Jafnaðarkaup“ verður bannað.

Það verður skilyrði fyrir félagslegri fjármögnun, að jafnrétti sé virt innan viðkomandi fyrirtækis.

Verslun, þjónusta og iðnaður
 
8. Utanríkismál

 

Utanríkisstefna Alþýðufylkingarinnar byggist á hagsmunum alþýðunnar, virðingu fyrir fullveldi þjóða og alþjóðlegri samvinnu að framfaramálum á jafnréttisgrundvelli. Ennfremur byggist hun á baráttu gegn heimsvaldastefnunni og fyrir friði og stöðugleika í heiminum. Þess vegna er Alþýðufylkingin fortakslaust á móti aðild Íslands að ESB, NATÓ og öðrum bandalögum heimsvaldasinna og beitir sér alfarið gegn frjálsu flæði fjármagns til og frá landinu, sem hefur þann tilgang að grafa undan efnahagslegu sjálfstæði og flytja auðæfi landsins frá fólkinu og úr landi.

Heimsvaldastefna

Heimsvaldastefnan er stærsta alþjóðlega ógnin við líf og hamingju fólks og við náttúruna. Baráttan gegn henni þarf því að vera í algjöru fyrirrúmi. Alþýðufylkingin vill að Ísland beiti sér í þágu friðar, réttlætis og umhverfisverndar á alþjóðavettvangi, bæði á sviði alþjóðlegra stofnana og á sviði samtaka alþýðunnar. Við viljum leggja okkar af mörkum til að efla friðarhreyfingu og umhverfisverndarhreyfingu heimsins, sem og að beina þeim í rétta átt, gegn rótum vandans, gegn kapítalismanum, sem verður aldrei sanngjarn, aldrei friðsamur og aldrei grænn. Við viljum að starf og stefna íslensku utanríkisþjónustunnar þjóni þessum markmiðum.

 

Við höfnum heimsvaldasinnuðu hernaðarbrölti og viljum ganga úr NATÓ. Á meðan landið situr fast þar viljum við beita fulltrúa Íslands til að ónýta sem mest af áformum NATÓ um hernað og stríð, og um útþenslu og hervæðingu.

 

Rússland

Alþýðufylkingin er eindreginn andstæðingur þess að þjarmað sé að Rússum með viðskiptaþvingunum. Af því leiðir að við viljum ekki að Ísland taki þátt í þeim, heldur að Íslendingar taki aftur upp eðlileg viðskipti við Rússa og endurnýja þá meðal annars rússnesk-íslenska fisksölusamninginn.

 

ESB

Alþýðufylkingin vill tafarlaus og formleg slit á aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Tal um þjóðaratkvæðagreiðslu um slit eða framhald er blekking og áróður: Alþingi samþykkti umsókn Íslands með fyrirvörum sem ESB ræðir ekki. Að fella þá niður væri ígildi nýrrar umsóknar og fæli í sér eindreginn vilja til aðildar. Tal um að „skoða hvað sé í boði“ er líka blekking og áróður, enda höfum við meira en nógar upplýsingar um hvað er í boði, til þess að hafna aðild Íslands fortakslaust og strax, og aðildarviðræður við ESB fela í sér aðlögun en ekki bara sakleysislega skoðun. Að sjálfsögðu viljum við halda áfram að eiga viðskipti og önnur samskipti við Evrópulöndin, bara ekki á kostnað lýðræðis, jafnaðar og velferðar.

 

ESB er ekki svar við gjaldmiðilsvanda, ekki svar við háum vöxtum og ekki svar við landlægri spillingu. ESB er ólýðræðisleg samsteypa stórra og smárra auðvaldsríkja, með þann helsta tilgang að vernda og auka hlut evrópsks auðvalds. Ef Ísland hengir sig á þann klafa munu afleiðingarnar verða meiri markaðsvæðing, minni jöfnuður, minni hagsæld, meira skrifræði, minna fullveldi, minna lýðræði – auk alvarlegra spurninga um mannréttindi, auðlindir, umhverfismál og fleira. Flest þessara vandamála eru vissulega til staðar, en við þurfum að bæta úr þeim sjálf en ekki auka. Það mun enginn gera það fyrir okkur hér eftir frekar en hingað til.

 

Alþjóðleg mannréttindi

Í utanríkisstefnu Alþýðufylkingarinnar eru mannréttindamál í fyrirrúmi, sér í lagi félagsleg mannréttindi. Við munum beita okkur hatrammlega gegn hungri og fátækt í heiminum, fyrir læsi og menntun, fyrir heilbrigðisþjónustu, bólusetningum, kynfrelsi. Við munum berjast af öllum kröftum gegn árásarstríði, sem er æðsti glæpur allra glæpa og felur í sér alla hina stríðsglæpina. Við munum starfa náið með þeim löndum sem rækja best skyldur sínar í mannréttindamálum.

 

Alþjóðleg umhverfismál

Helsta orsök umhverfisvandans er sókn auðvaldsins í hámarksgróða og offramleiðslu. Þar skarar hver eld að sinni köku og vill ekki gefa eftir, jafnvel þótt hann viðurkenni vandann og vilji kannski að hinir gefi eftir hjá sér. Fjármálaauðvaldið ýtir undir þessa viðleitni með kröfu um háar vaxtagreiðslur og arðgreiðslur til hlutabréfaeigenda.

 

Umhverfismál skipta alla máli og eru úrslitamál í framtíð mannkynsins. Þau eru líka þess eðlis, að mörg þeirra verða ekki leyst nema með samvinnu margra landa, jafnvel flestra eða allra eftir atvikum. Barátta fyrir alþjóðlegu samstarfi í umhverfismálum – samstarfi sem virkar – er því meginás í stefnu Alþýðufylkingarinnar í utanríkismálum. Við sjáum ekki „tækifæri“ í því að einhverjar siglingaleiðir opnist þegar það er afleiðing hamfara af mannavöldum.

 

Við viljum að Ísland beiti sér eftir fremsta megni í að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda og í að minnka mengun og súrnun sjávar, svo nokkuð sé nefnt. Ónauðsynlega flutninga á fólki og varningi þarf að minnka til að draga úr útblæstri. Orku þarf að nýta betur og minnka þarf bruðl með hluti sem hafa verið framleiddir með mengandi hætti, ekki síst matvæli.

 

Við viljum styðja fátæk lönd til að styrkja vinnuverndarlöggjöf sína, kjarasamninga og umhverfisreglugerðir, til þess að draga úr ásókn vestrænna fyrirtækja þangað og þar með draga úr bæði illri meðferð á fólki og náttúru við framleiðsluna, og óþarfa flutningum með afurðirnar heimshorna á milli.

 

Einboðið er að iðnvæddu löndin ríði á vaðið og dragi  fyrst og mest úr sínum útblæstri, enda hafa þau bæði spúið mestu út í gegn um tíðina og gera það enn, og hafa auk þess mun betur efni á umhverfisvænni leiðum heldur en fátækari lönd.

 

Lausnir í umhverfismálum verða að byggjast á félagslegum grundvelli og lýðræðislegum ákvörðunum. Þar er ekki pláss fyrir sóðaleg sjónarmið auðmanna um gróðamöguleika, of mikið er í húfi.

 

Ísland á að ganga á undan með fordæmi, beita sér pólitískt og diplómatískt eftir því sem það hefur vigt til, og styðja umhverfisverndarhreyfingar um allan heim til þess að létta þeim baráttuna.

 

Menningartengsl

Rækta þarf sérstaklega menningartengsl við helstu upprunalönd innflytjenda, í náinni samvinnu við samtök þeirra sjálfra, þannig að jákvæð samskipti og upplifun allra verði sem mest og best, og fordómar og misskilningur minnki. Að sama skapi ætti að rækta sérstaklega tengslin við þau lönd sem flestir Íslendingar hafa flutt til. Ísland ætti að beita sér fyrir menningarviðburðum, skiptinámi, dvöl gistikennara, stofnun menningarsetra o.s.frv. á báða bóga.

 

Þróunaraðstoð

Alþýðufylkingin vill hjálpa fátækum löndum að þrífast með því að deila með þeim þekkingu sem Ísland á sérfræðinga í. Við viljum nýta íslenskt hugvit í orkunýtingu, útgerð og fiskvinnslu, í heilbrigðismálum og stoðtækjasmíði og fleiri þjóðþrifamálum, til að gera lífið auðveldara.

 

Með nýlendustefnu og heimsvaldastefnu hefur skapast kerfi þar sem (að mestu leyti vestræn) elíta sýgur ævintýralega mikinn arð út úr hagkerfum fátækra landa (eins og fátæku fólki ríkra landa), margmargfalt það sem rennur í hina áttina. Ísland hefur ekki afl til að trufla þetta kerfi að ráði. En við viljum leggja okkar af mörkum með ráðum og dáð, með því að leggja til breytta stefnu á alþjóðlegum vettvangi, s.s. innan SÞ, WTO, IMF og annarra stofnana, og með opinberri gagnrýni á arðránskerfi heimsvaldastefnunnar.

 

Flóttamenn

Almennt trúum við á rétt fólks til að lifa með reisn við öryggi og velferð. Við fordæmum þá sem hrekja saklaust fólk á vergang og lítum á það sem skyldu okkar að hjálpa þeim sem við getum hjálpað. Við vildum stela slagorðinu af fótstalli Frelsisstyttunnar og gera það að okkar: Gefið mér ykkar þreyttu, fátæku og kúguðu sem þrá að draga andann frjálsir.

 

Við viljum að Íslendingar búi sig undir að taka við miklum fjölda flóttamanna sem flýja stríð, hungursneyðir, ofsóknir og kúgun. Við viljum byggja upp þá innviði sem þarf til að veita húsaskjól, heilbrigðisþjónustu, menntun og annað sem flóttafólk þarfnast og bjóða það svo velkomið svo hratt og í þeim mæli sem samfélagið þolir að taka við því. Nauðsynlegt er að vanda vel til verka svo að sem mest sátt geti skapast, því öðruvísi er það ekki hægt.

 

Við viljum ekki að aðstoð við flóttafólk (frekar en aðra bágstadda) sé ölmusa og ekki að það sé misnotað sem ódýrt vinnuafl, heldur taka á móti því sem jafningjum og í samstöðu. Það þýðir að það geti unnið fyrir sér á sömu kjörum og aðrir, það njóti sömu réttinda og aðrir.

 

Við viljum líka styðja hjálparstörf í flóttamannabúðum erlendis, þar sem fólk býr víða við hryllilegar aðstæður sem ráðamenn heykjast á að bæta úr og þykjast ekki hafa efni á því, sitjandi sjálfir mettir og spariklæddir í allsnægtum.

 

Baráttan gegn hörmungum er samt veigamesta flóttamannahjálpin: barátta gegn heimsvaldastefnu, gegn farsóttum, gegn kúgun og gegn umhverfisspjöllum. Mesta hjálpin við flóttamenn er að hrekja þá ekki á flótta til að byrja með.

 

Griðastaður fyrir uppljóstrara, hinsegin fólk, trúvillinga og aðra sem sæta ofsóknum

Alþýðufylkingin vill að Ísland bjóði þeim griðastað, sem eru ofsóttir saklausir eða fyrir baráttu sína gegn ranglæti heimsins. Þannig viljum við að fólk sem hefur lekið gögnum sem varpa ljósi á grimmd og sálsýki heimsvaldasinna geti fengið skjól á Íslandi. Þá viljum við að Ísland skýli upplýsingaveitum internetsins sem birta þessi viðkvæmu gögn.

 

Við viljum bjóða grið fyrir fólk sem er ofsótt annars staðar vegna kynhneigðar, trúarskoðana og annarra einkamála sinna.

 

Færeyjar og Grænland

Alþýðufylkingin vill auka til muna tengsl Íslands við okkar næstu nágranna og frændur, Færeyinga og Grænlendinga. Við viljum sér í lagi hjálpa Grænlendingum að byggja upp sjálfstæða innviði sína og þróa efnahag og samfélag.

 

Norðurslóðir

Alþýðufylkingin styður áframhaldandi náið samstarf við þjóðir á norðurhjara um hvernig gengið er um norðurslóðir. Áhersla okkar er á að viðkvæmu umhverfinu sé hvorki spillt með óvarkárni né sóðaskap og að norðurslóðir verði friðlýstar fyrir öllu hernaðarbrölti. Hins vegar leggjum við áherslu á að efla viðbúnað hérlendis og erlendis til að bregðast við slysum á fólki og náttúru, sem munu óhjákvæmilega koma upp.

 

 

Alþjóðleg samstaða vinnandi fólks

Þótt Ísland muni naumast leiða heimsbyltingu gegn auðvaldinu, vill Alþýðufylkingin nota hvert það tækifæri sem hún fær til að hvetja alþýðu heimsins til að heimta sitt úr höndum valdastéttarinnar. Hvetja, og styðja með þeim möguleikum sem við höfum hverju sinni.

 

Alþýðufylkingin vill taka upp samstarf milli Íslands og viðskiptablokkarinnar ALBA í Rómönsku-Ameríku, sem byggir upp viðskiptatengsl milli landa á félagslegum grunni.

Utanríkismál
 
9. Innanríkismál

Grundvallarstefna Alþýðufylkingarinnar í innanríkismálum er að jöfnuður og jafnrétti verði meginregla í öllu samfélaginu. Komið verði með raunhæfum aðgerðum í veg fyrir mismunun á grundvelli kynferðis, kynþáttar, kynhneigðar, búsetu og samfélagsstöðu að öðru leyti. Úrskurður í ágreiningsmálum verði að kostnaðarlausu fyrir aðila, þar á meðal fyrir dómstólum, þannig að réttarfar ráðist ekki af fjárhagsstöðu.

 

Þjóðfélagshópar sem standa höllum fæti hagnast hlutfallslega mest á auknum jöfnuði. Sterkasta svarið við mismunun er því jöfnuður. Þá viljum við afnema launaleynd og koma á gegnsærri launamyndun, sem dregur líka leyndarhjúpinn ofan af mismunun og gerir hana erfiðari í framkvæmd.

 

Land sem er jafn dreifbýlt og Ísland, og með jafnstóra efnahagslögsögu, þarf að vera vel búið björgunartækjum. Við viljum því kaupa fleiri björgunarþyrlur, láta smíða tvö ný varðskip í íslenskum skipasmíðastöðvum, og tryggja björgunarsveitunum öruggan rekstrargrundvöll í samráði við þær sjálfar.

 
9.1 Lögregla, dómstólar og fangelsi

Lögreglumálin verður að taka til gagngerrar endurskoðunar. Sérstaklega þarf að skoða og skilgreina hugtökin „allsherjarregla“ og „valdstjórn“ betur og nákvæmar en nú er gert þannig að duttlungar lögregluyfirvalda eða annarra valdhafa ráði ekki för á hverjum tíma. Þá þarf að endurskoða og skilgreina upp á nýtt heimildir lögreglu til húsleita, líkamsleita, símhlerana, skráninga persónulegra upplýsinga (svo sem pólitískra eða annarra skoðana) o.s.frv. svo ekki fari milli mála hverjar heimildirnar eru og að lögregluyfirvöld eða einstakir lögregluþjónar geti ekki farið á svig við þessar heimildir.

 

Koma verður á virku eftirliti með störfum og vinnubrögðum dómstóla sem og dómaranna sjálfra.

 

Stefna þjóðfélagsins í fangelsismálum á að vera að fólk fari þaðan betri manneskjur. Endurhæfing er hér lykilhugtak. Allir fangar þurfa t.d. að eiga kost á endurmenntun. Sérstaklega þarf að leita leiða eða fjölga leiðum til að stytta hinn eiginlega fangelsistíma með öðrum úrræðum, huga að og auka úrræði að lokinni afplánun og umfram allt að hætta að líta á sjúklinga sem glæpamenn, hvort sem það eru fíkniefnasjúklingar eða geðsjúkir einstaklingar.

 

Við viljum láta rannsaka símhleranir og aðrar persónunjósnir Sjálfstæðisflokksins og annarra afturhaldsafla frá öllum lýðveldistímanum ásamt pólitískum ofsóknum á hendur róttæklingum og öðrum andófsöflum. Við viljum láta rannsaka fyrri og seinni einkavæðingu bankanna. Með því viljum við afhjúpa sannleikann og ef hægt er, koma lögum yfir seka valdamenn í málum sem ekki eru fyrnd.

 

9.2 Trúmál og trúarstofnanir

Skv. stjórnarskrá lýðveldisins Íslands má ekki ekki mismuna þegnunum á grundvelli trúarskoðana en um leið lýsir þessi sama stjórnarskrá hina evangelísku lúthersku kirkju þjóðkirkju á Íslandi og ber stjórnvöldum að styðja hana og vernda umfram aðrar kirkjudeildir eða trúarbrögð.  Hér er gróflega vegið að trúfrelsi þegnanna og í raun er þetta ákvæði arfur frá þeim tíma er konungsveldi í norðanverðri Evrópu sáu sér hag í að losa sig undan oki hinnar kaþólsku kirkju með því að taka hins lúthersku undir sinn verndarvæng.

 

Öll trúarbrögð eða trúfélög á Íslandi verða að vera jafnrétthá í stjórnarskrá Íslands, að öðrum kosti er tómt mál að tala um trúfrelsi í landinu. Enn fremur verður að tryggja að trúleysi njóti sama réttar og trú, t.d. varðandi manndómsvígslur, giftingar og útfarir svo eitthvað sé nefnt.

 

9.3 Sveitastjórnarmál

Stefna Alþýðufylkingarinnar í sveitarstjórnarmálum byggir á því meginsjónarmiði samtakanna að skilyrði fyrir auknum jöfnuði, lýðræði og velferð og lífsgæðum alþýðunnar sé aukið vægi hins félagslega á kostnað markaðsvæðingar. Alþýðufylkingin lítur ekki á félagslegar lausnir sem ölmusu til fátæklinga eins og títt er, heldur leiðir til að leysa samfélagsleg mál án þess að auðmenn geti haft þau að féþúfu. Þannig eru félagslegar lausnir almennt til mikils sparnaðar fyrir samfélagið og koma í veg fyrir fátækt, frekar en að vera kostnaðarsöm viðbrögð við fátækt eins og oft er talað um.

 

Með samþættingu ólíkra málaflokka er hægt að ná betri árangri bæði fyrir velferð einstaklinganna og samfélagið. Nefna má félagslega rekin fyrirtæki, eins og bæjarútgerðir eða bæjarbakarí, sem bjóði atvinnu fyrir fólk sem á erfitt uppdráttar á almennum vinnumarkaði og tryggja að verðmætasköpunin skili sér til samfélagsins.

 

Hindra þarf að auðmenn geti yfirtekið skipulagsmál í sveitarfélögum í krafti lóðareigna.

 

Þó að málefnum sveitarfélaga sé að ýmsu leyti þröngur stakkur skorinn, þar eð verkefni þeirra og tekjustofnar eru að miklu leyti ákveðin af ríkisvaldinu, þá eru ýmsir möguleikar til samfélagsbreytinga á sveitarstjórnarstiginu ef andi og viðleitni stefnuskrár Alþýðufylkingarinnar ræður ferðinni og fjöldinn er virkjaður til að fylgja henni eftir.

 

9.4 Byggðamál

Alþýðufylkingin hefur áhyggjur af því hve fjarað hefur undan byggðinni víða um land. Með frekari grisjun byggðar þar sem hún er strjálust blasir við hrun sem hefur í för með sér margþættan samfélagslegan skaða. Víða hafa yngri kynslóðir flutt burt og lítil endurnýjun átt sér stað í áratugi. Alþýðufylkingin beitir sér fyrir því að snúa þessari þróun við og gera fólki kleift að viðhalda byggð í öllu landinu.

 

Við teljum að margvísleg áform flokksins stuðli að þessu markmiði. Þar má nefna almenna félagsvæðingu í fjármálakerfinu og innviðum samfélagsins, stóreflingu og aukna fjölbreytni innlends landbúnaðar, byggðatengingu veiðiheimilda, eflingu heilbrigðisþjónustu, samgangna, skóla og internetsambands á landsbyggðinni, og fleira mætti nefna.

 

Þetta gerist þó ekki af sjálfu sér og getur tekið nokkurn tíma. Til að landsbyggðinni blæði ekki út áður en hún fær möguleika á að rétta úr kútnum vill Alþýðufylkingin beita sér fyrir landshlutatengdum skattaívilnunum til að stuðla að endurnýjun og auðvelda endurreisn byggðar um allt land til framtíðar.

 

9.5 Samgöngumál

Tryggja þarf almenningi aðgang að góðu, tíðum og ódýrum almenningssamgöngum í lofti, á láði eða legi. Þetta er ekki bara velferðarmál, heldur er þetta einnig umhverfismál því að með stórbættum almenningssamgöngum má leiða líkur að því að notkun einkabílsins minnki töluvert. Vandinn á Íslandi er að almenningssamgöngur eru í mörgum tilfellum ekki raunhæfur kostur. Þó er mikilvægt að efla almenningssamgöngur alls staðar á landinu þar sem kostur er og renna stoðum undir aukna notkun þeirra. Skilyrði fyrir því er að þær séu félagslega reknar og ekki á gróðaskyni. Auk þess þarf að félagsvæða alla orkusölu og aðra innviði samgöngukerfisins. Koma þarf í veg fyrir einkavæðingu og gjaldtöku á vegum.

 

Flýta þarf rafvæðingu samgangna eftir því sem kostur er með nauðsynlegu þjónustuneti við rafbíla. Ríkið á að skaffa rafbílum rafmagn án endurgjalds til að hvetja fólk til að eignast þá, enda er rafmagnið framleitt í stórum stíl innanlands en einnota orkugjafarnir innfluttir og borgaðir með erlendum gjaldeyri. Leggja þarf drög að rafknúnu lestakerfi á höfuðborgarsvæðinu bæði ofan- og neðanjarðar, sem síðar gæti teygt sig til nágrannasvæða. Með öflugu rafknúnu almenningssamgöngukerfi og tíðum ferðum og lágu gjaldi má breyta ásýnd þéttbýlissamfélagsins og loftgæðum til hins betra og spara á mörgum sviðum til lengri tíma litið.

 

Viðhald og lagning nýrra vega hefur engan veginn haldist í hendur við álagið, sem eykst ár frá ári og er nú svo komið að vegfarendum stafar beinlínis hætta af ástandi veganna. Breikka þarf alla helstu vegi landsins og ljúka við að skipta út einbreiðum brúm fyrir tvíbreiðar. Enn fremur þarf að setja bundið slitlag á alla malarvegi á láglendi.

 

Við viljum taka aftur upp strandflutninga, einkum á þungavöru, og létta með því slysahættu og öðru álagi af þjóðvegunum.

 

Merkja þarf og stika hálendisslóðir og merkja mun betur, bæði á kortum og á skiltum, hvernig farartæki þarf til að komast hinar ýmsu hálendisleiðir. Oft þarf heldur ekki mikinn tilkostnað til að laga slóða þannig að utanvegaakstur heyri sögunni til.

 

Aðgengi að upplýsingum, gott símasamband og almenn aðstaða til fjarskipta eru einnig samgöngumál. Tryggja verður öllum landsmönnum góðan, öruggan og ódýran aðgang að fjarskiptum óháð búsetu en til þess verður að vinda ofan af þeirri óheillaþróun, sem átt hefur sér stað frá því að símkerfi landsmanna var einkavætt. Hér eins og í flestum, ef ekki öllum málum, sem snúa að almannaheill og almannaþjónustu er félagsvæðing lausnin; að samfélagið tryggi samfélagslegar þarfir landsmanna.

 
9.6 Mannréttindi og jafnrétti

Mannréttindi eru ekki verslunarvara og þau eru ekki framseljanleg. Þau eru heldur ekki eitthvað sjálfsagt og meðfætt og þau eru ekki eitthvað sem er öruggt á öllum stöðum á öllum tímum.

 

Mannréttindi eru hins vegar eitthvað, sem almenningur eða einstakir hópar hafa þurft að berjast fyrir, oft í langan tíma og oft blóðugri baráttu. Mannréttindi eru eitthvað, sem hægt er að taka af fólki ef við höldum ekki vöku okkar. Með öðrum orðum er mannréttindabaráttan líklega eilíf.

 

Lög og reglur um mannréttindi eru oft sett til að vernda rétt minnihlutahópa. Til dæmis er algengt að við heyrum eða lesum að ekki megi mismuna þegnunum á grundvelli kyns, kynþáttar, kynhneigðar, trúar, stjórnmálaskoðana, uppruna o.s.frv. Ójafnrétti felst þá í því að þegnunum er mismunað á grundvelli einhverra ofangreindra eða annarra þátta, sem við höfum skilgreint sem mannréttindamál.

 

Þökk sé áratugalangri baráttu samkynhneigðra fyrir réttindum sínum, hefur Ísland náð gríðarlegum árangri í því máli. Á sama tíma er íslenskum þegnum oft mismunað á grundvelli annarra ofangreindra þátta og það töluvert í mörgum tilvikum. Sem dæmi má nefna launamisrétti, aðgengi að vinnu, þjóðkirkju, 5% atkvæðalágmarkið til að ná sæti á alþingi o.s.frv. Þá er vaxandi útlendingahatur mikið áhyggjuefni.

 

Ekki má gleyma mismunun vegna fötlunar: Öryrkjar og aðrir bótaþegar eru dæmdir til fátæktar og þannig gróflega mismunað vegna stöðu sinnar. Þá mismunun viljum við rétta með því að hækka bætur upp í framfærsluviðmið, þótt það komi seint í stað góðrar heilsu. Við viljum án tafar fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

 

Alþýðufylkingin vill laga stofnanir velferðarkerfisins betur að þörfum skjólstæðinga sinna með því að skikka þær til að upplýsa fólk betur um réttindi sín og skyldur að eigin frumkvæði. Við viljum að fólk – sérstaklega öryrkjar en líka aðrir bótaþegar – geti haft sinn eigin þjónustufulltrúa hjá velferðarkerfinu, til dæmis félagsráðgjafa sem geti hjálpað því að halda utan um mál sín og hafa yfirsýn yfir þau. Þá viljum við stofna embætti umboðsmanns sem sé sérstakur málsvari fyrir skjólstæðinga velferðarkerfisins.

 

Alþýðufylkingin vill berjast með almenningi og minnihlutahópum fyrir stórbættum mannréttindum á Íslandi fyrir alla og hvetur til þess að við öll höldum vöku okkar í þessum málaflokki svo valdhafar sjái sér ekki leik á borði og afnemi áunnin réttindi.

 

9.7 Varnir gegn félagslegum undirboðum

Félagsleg undirboð á vinnumarkaði hafa skotið upp kollinum af og til undanfarna áratugi, en það er nýlunda að undirboð á vinnumarkaði tíðkist helst þegar uppsveifla er á vinnumarkaði.

 

Með frjálsu flæði starfsfólks af Evrópska efnahagssvæðinu hefur opnast markaður innflutts vinnuafls og ekki síður markaður og sóknarfæri milliliða eða svokallaðra starfsmannaleiga. Það gefur auga leið að bæði skattgreiðslur til samfélagsins og launagreiðslur til starfsmanna verða lægri en ef um hefðbundið ráðningasamband væri að ræða.

 

Alþýðufylkingin mun beita sér fyrir því að uppræta starfsemi leigufyrirtækja með fólk.

 

Alþýðufylkingin mun beita sér fyrir lagasetningu um að ólögmætt sé að greiða lægri laun fyrir fulla dagvinnu en sem nemur grunnframfærslu einstaklings, enda verði búið að endurskoða þann útreikning.

 

Alþýðufylkingin vill stofna embætti umboðsmanns aðfluttra, sem auðveldi þeim að fóta sig í íslensku samfélagi, þar sem bæði innflytjendur, farandverkafólk og flóttamenn geti fengið m.a. þjónustu félagsráðgjafa og túlka og lært að þekkja réttindi sín og skyldur.

Innanríkismál
 
10. Stjórnarskráin

Alþýðufylkingin tekur ekki undir þá skoðun að orsök kreppunnar sé að finna í stjórnarskránni og því sé brýnt að breyta henna til að koma á samfélagslegum breytingum. Enda koma miklar breytingar á stjórnarskrám frekar í kjölfar þjóðfélagsbreytinga en að stuðla að þeim.

 

Frumvarp Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá felur í sér ýmsar breytingar sem eru til bóta, t.d. um aukna aðkomu almennings að málum gegnum þjóðaratkvæðagreislur. Þá er greinin um náttúruauðlindir mjög til bóta og fleira mætti nefna. Hins vegar virðist 111. greinin um framsal ríkisvalds aðallega þjóna þeim tilgangi að auðvelda inngöngu í ESB.

 

Þegar kemur til uppstokkunar á stjórnarskránni verður fullt tilefni til að beita sér fyrir mun meiri breytingum til jafnaðar og hagsbóta fyrir alþýðuna en stjórnlagaráð hefur lagt til. Þar má nefna ítarlegri skilgreiningu á eignarréttinum sem kvæði á um að eignarréttur allra skuli verða jafn gildur. Núverandi skilgreining sem aðeins segir að eignarrétturinn sé friðhelgur, er mest notuð til að renna stoðum undir rétt auðstéttarinnar til að halda sínu og græða á eigin auðmagni. Setja mætti í stjórnarskrá ákvæði um hámarks launamun, félagslegan rekstur á innviðum samfélagsins og fleira sem setur auðstéttinni skorður en bætir réttarstöðu alþýðunnar.

Stjórnarskráin
 
11. Íslenska krónan

Ísland hefur sitt eigið hagkerfi með sína eigin hagsveiflu og því er eðlilegt að það hafi áfram sinn eigin gjaldmiðil, íslensku krónuna, svo gengi, vextir og önnur hagstjórnartæki geti aðallega farið eftir hagsveiflu Íslands en ekki einhvers annars hagkerfis.

 

Krónunni kennir illur ræðari. Helstu vandamál tengd íslensku krónunni eru í raun minnst krónunni að kenna, heldur snúast frekar um okurvexti og arðrán: aðalvandinn við krónuna er að annarri hverri krónu er stolið af okkur.

 

Þar sem Alþýðufylkingin er almennt mikið á móti fjármagnsflutningum inn í landið og út úr því, sjáum við ekki að gjaldeyrishöft séu stórt vandamál.

Íslenska krónan
bottom of page