top of page
Sósíalismi í einu sveitafélagi

Sósíalismi í einu sveitarfélagi

Jöfnuður – velferð – félagslegar lausnir
Borgarmálastefnuskrá Alþýðufylkingarinnar 2014
Inngangur

Stefna Alþýðufylkingarinnar í sveitarstjórnarmálum byggir á því meginsjónarmiði samtakanna að skilyrði fyrir auknum jöfnuði, lýðræði og velferð og lífsgæðum alþýðunnar sé aukið vægi hins félagslega á kostnað markaðsvæðingar. Alþýðufylkingin lítur ekki á félagslegar lausnir sem ölmusu til fátæklinga eins og títt er, heldur leiðir til að leysa samfélagsleg mál án þess að auðmenn geti haft þau að féþúfu. Þannig eru félagslegar lausnir almennt til mikils sparnaðar fyrir samfélagið og koma í veg fyrir fátækt, frekar en að vera kostnaðarsöm viðbrögð við fátækt eins og oft er talað um.

 

Með samþættingu ólíkra málaflokka er hægt að ná betri árangri bæði fyrir velferð einstaklinganna og samfélagið. Það er t.d. óþolandi að geðfatlaðir komist ekki út af stofnunum vegna húsnæðisleysis og bati þeirra sé þannig hindraður og þeim jafnvel valdið afturför, um leið og dýrmæt stofnanapláss eru tekin frá öðrum sem þurfa á þeim að halda.

 

Þó að málefnum sveitarfélaga sé að ýmsu leyti þröngur stakkur skorinn, þar eð verkefni þeirra og tekjustofnar eru að miklu leyti ákveðin af ríkisvaldinu, þá eru ýmsir möguleikar til samfélagsbreytinga á sveitarstjórnarstiginu ef andi og viðleitni stefnuskrár Alþýðufylkingarinnar ræður ferðinni og fjöldinn er virkjaður til að fylgja henni eftir.

 

Velferðarmál

Eitt mikilvægasta verkefni Reykjavíkurborgar er að hámarka velferð allra borgarbúa. Ekki með því að beygja fyrst þá fátæku í duftið, til að geta síðan með hofmóði rétt þeim ölmusu sem hvorki er til þess að lifa eða deyja af – heldur með því að koma í veg fyrir fátækt með öllum ráðum og mæta þörfum fólksins þar sem þær eru. Framfærslustyrkur þarf að hækka þannig að hægt sé að lifa á honum. Það er lítið gagn í hálfri framfærslu og borginni ekki til framdráttar að eiga olnbogabörn sem lifa aðeins hálfu lífi. Sem flestum þarf að hjálpa til að geta framfleytt sér af eigin rammleik.

 

Aflétta þarf átthagafjötrum fátækra með því að fella niður skilyrði um að hafa búið í sveitarfélaginu ákveðinn tíma til að eiga rétt á félagslegu húsnæði eða öðrum velferðarstuðningi.

 

Húsnæðismál

Reykjavíkurborg á að vinna að því markmiði að allir borgarbúar eignist öruggt heimili á viðráðanlegu verði. Stærsti vandi í húsnæðismálum hér á landi er vaxtaokur sem tvöfaldar húsæðiskostnaðinn. Borgin á að útvega sem flestum húsnæði á kostnaðarverði, þ.e. með félagslegri fjármögnun. Félagslegt húsnæði á ekki að vera ölmusa fyrir blásnauða heldur réttur allra og með forgang fyrir þá sem mest þurfa á því að halda. Húsnæði er lífsnauðsyn, sem samfélagið á að koma í veg fyrir að auðmenn hafi að féþúfu. Þess vegna á Reykjavíkurborg ekki að ívilna fjárfestum í leiguhúsnæði, með eftirgjöf lóðagjalda, heldur að sjá sjálf um byggingaframkvæmdir og félagslegt eignarhald.

 

Samgöngumál

Leggja þarf áherslu á að efla almenningssamgöngur og gera notkun þeirra aðgengilegri. Það er fyllilega tímabært að undirbúa rafknúið lestakerfi á teinum á höfuðborgarsvæðinu sem ýmist væri ofan- eða neðanjarðar eftir landslagi og þéttleika byggðar. Það væri aðskilið frá gatnakerfinu og kæmist því hraðar yfir og þjónaði þannig íbúunum betur. Þetta myndi leiða til mikils sparnaðar, bæði í rekstrarkostnaði, mengun, endurnýjun og stækkun gatnakerfisins, og mundi auka lífsgæði og umhverfisgæði svæðisins á margan hátt.

 

Almenningssamgöngur innan höfuðborgarsvæðisins verða að vera félagslega reknar á hagkvæman hátt og gjald fyrir notkun þeirra að vera mjög lágt.

 

Skipulagsmál

Vernda þarf ásýnd og mannvirki eldri hluta borgarinnar almennilega og fara af mikilli varúð í breytingar, sérstaklega ef um niðurrif er að ræða. Koma verður í veg fyrir að auðmenn geti yfirtekið skipulagsvaldið í krafti lóðaeigna og knúið fram byggingamagn sem umturnar miðbænum reglulega og ber hann ofurliði í þeim tilgangi einum að tryggja auðmönnum hámarksgróða.

 

Þétting byggðar á ekki að fela í sér að öllu sé hrúgað í gamla miðbæinn heldur þarf að huga að því að öll hverfi borgarinnar þróist þannig að gott verði að búa þar og þjónusta haldist þar við. Einnig er mikilvægt að alls staðar í borginni sé stutt í aðlaðandi útivistarsvæði fyrir born og fullorðna og að útþensla gatnakerfisins verði stöðvuð og snúið við, sem efling almenningssamgangna gefur tilefni til.

 

Alþýðufylkingin styður að flugvöllurinn verði í Vatnsmýrinni um fyrirsjáanlega framtíð eða þar til önnur og betri lausn finnst á hlutverki hans.

 

Auðlindamál

Alþýðufylkingin berst gegn allri markaðsvæðingu, einkavæðingu og rányrkju á auðlindum náttúrunnar. Orkuveitan á að sjá borgarbúum fyrir orku og hreinu og ómenguðu vatni á eins hagstæðan hátt og mögulegt er. Það er ólíðandi að auðmenn reyni að sölsa undir sig innviði samfélagsins, eins og vatns- og orkuöflun. Ein leið þeirra til þess er að drekkja opinberum orkufyrtækjum í skuldum svo þau verði berskjölduð fyrir árásum, íhlutun og loks yfirtöku. Að því loknu eru þau blóðmjólkuð, orkuverð og vatnsskattur hækkar, viðhald drabbast niður. Vatnsgæðum hrakar, og öllum verðmætum er rænt. Þegar þau svo loks eru keyrð í þrot, er skuldunum og endurreisn fyrirtækjanna velt yfir á almenning. Þetta hefur sannað sig alls staðar þar sem þessi þróun hefur fengið að viðgangast. Nú er opinskátt reynt að ræna orkufyrirtækjunum úr höndum almennings þannig að gróflega virðist farið á svig við lög. Því verður að mæta með fullri festu og verja réttindi og sameiginlegar eignir borgarbúa fyrir ásælni auðvaldsins.

 

Stöðva skal útþenslu í nýtingu háhitasvæða í nágrenni Reykjavíkur, þar sem af henni hlýst veruleg mengun og annar umhverfisvandi, og mikil orka fer í súginn með heitu afgangsvatni við raforkuframleiðslu úr jarðhita. Auka má nýtingu á því heita vatni sem þegar fellur til með aukinni ræktun í gróðurhúsum í landi borgarinnar og nágrenni. Þannig má auka matvælaframleiðslu í þéttbýlinu, auka atvinnu og innlenda verðmætasköpun og spara flutninga.

 

Orkuveitan á að byggja alþjóðlega samvinnu um nýtingu jarðhita á þeirri meginreglu að auðlindirnar og nýting þeirra séu í félagslegri eigu. Sé það uppfyllt á ráðgjöf Orkuveitunnar að lúta lögmálum viðskipa með þjónustu eða þróunarsamvinnu.

 

Atvinnumál

Reykjavíkurborg taki frumkvæði í verðmætaskapandi atvinnurekstri í framleiðslu og þjónustu. Þannig má auka tekjumöguleika borgarinnar og um leið skapa störf fyrir þá sem standa höllum fæti á vinnumarkaði. Þannig má um leið spara og auka árangur í meðferðarúrræðum og virkni á vinnumarkaði.

 

Borgin taki aftur til sín rekstur sem hefur verið einkavæddur undanfarna áratugi eftir því sem við verður komið, svo sem snjómokstur, malbikun, sorphirðu, ýmislegt viðhald o.s.frv.

 

Skólamál

Alþýðufylkingin leggur áherslu á eflingu skólastarfs bæði á forskóla- og grunnskólastigi. Mikilvægt er að bæta kjör kennara til að stöðva flótta úr starfsgreininni. Taka þarf á einelti í skólum og skapa andrúmsloft samstöðu og samvinnu í stað átaka og samkeppni.

 

Foreldrar barna með sérstakar þarfir skulu í samráði við skólayfirvöld hafa val um hvort þau senda börn sín í skóla án aðgreiningar eða sérskóla sem sniðinn er fyrir þeirra þarfir.

 

Kjaramál

Alþýðufylkingin mun beita sér fyrir auknu vinnustaðalýðræði á vettvangi Reykjavíkurborgar. Laun verði jöfnuð þannig að munur á hæstu og lægstu launum verði ekki meiri en tvöfaldur.

bottom of page